Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 1999 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Frumvarp til nýrra náttúruverndarlaga

Guðmundur Bjarnason, umhverfisráðherra, mun á næstu dögum leggja fram á Alþingi frumvarp til nýrra laga um náttúruvernd. Er um heildarlöggjöf að ræða sem ætlað er að leysa af hólmi eldri lög sem að grunni til eru frá árinu 1971.
Lengi hefur verið talin brýn þörf á að endurskoða lög um náttúruvernd. Umhverfisráðherra ákvað í upphafi kjörtímabilsins að skipta endurskoðuninni í tvennt. Árið 1996 samþykkti Alþingi lög nr. 93, 1996 sem fólu í sér grundvallarbreytingar á stjórn náttúruverndarmála og stofnun Náttúruverndar ríkisins sem tók að mestu við daglegum rekstri og verkefnum Náttúruverndarráðs.
Í október 1996 skipaði ráðherra nefnd undir formennsku Guðjóns Ólafs Jónssonar, aðstoðarmanns umhverfisráðherra, til að vinna að endurskoðun á efnisþáttum náttúruverndarlaga. Nefndin lauk störfum í desember síðastliðnum og skilaði ráðherra tillögu að frumvarpi. Er frumvarp ráðherra að mestu byggt á þeim tillögum.

Helstu nýmæli og breytingar samkvæmt frumvarpinu eru þessar:
1. Ábyrgð heimamanna á framkvæmd náttúruverndarlaga er aukin, svo og vægi og hlutverk náttúruverndarnefnda sveitarfélaga.
2. Ekki er gert ráð fyrir að Náttúruvernd ríkisins lúti sérstakri stjórn.
3. Réttur manna til umferðar um landið og dvalar, svokallaður almannaréttur, er rýmkaður mjög. Í frumvarpinu er að finna sérstök ákvæði um umferð gangandi, hjólandi og ríðandi manna, svo og um heimild manna til að slá upp tjöldum og um tínslu berja, sveppa, fjallagrasa og jurta.
4. Lagðar eru til skýrar reglur um bann við akstri utan vega.
5. Kveðið er á um aðkomu náttúruverndaryfirvalda að gerð skipulagsáætlana og breytinga á þeim, svo og við úrskurði um mat á umhverfisáhrifum.
6. Sérstakur kafli frumvarpsins fjallar um landslagsvernd og fleira henni tengt. Þar eru m.a. tilgreindar landslagsgerðir sem njóta skulu sérstakrar verndar. Ennfremur er þar að finna ákvæði um vernd steinda og fjallað um innflutning, ræktun og dreifingu framandi lífvera.
7. Lagðar eru til nýjar og hertar reglur um nám jarðefna, þar sem m.a. eru ákvæði um heimildir til efnistöku, áætlun framkvæmdaraðila, frágang efnistökusvæða og tryggingu fyrir honum. Náttúruvernd ríkisins mun gera tillögur um frágang efnistökusvæða sem hætt er að nota og hafa umsjón með frágangi og skal því verki lokið eigi síðar en árið 2003.
8. Ákvæði um friðlýsingar eru einfölduð og endurbætt. Sérstaklega er kveðið á um friðlýsingu náttúrumyndana í hafi.
9. Mælt er fyrir um að umhverfisráðherra skuli leggja sérstaka náttúruverndaráætlun fyrir Alþingi fimmta hvert ár, í fyrsta sinn árið 2000, og skal hún vera hluti af náttúruminjaskrá.

Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði að lögum fyrir þinglok.

 Fréttatilkynning nr. 3/1999
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum