Hoppa yfir valmynd
29. júní 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tillögur að aðgerðum til að draga úr notkun plastpoka kynntar fyrir ráðherra

Starfshópurinn ásamt ráðherra F.v. Hólmfríður Þorsteinsdóttir, Eygerður Margrétardóttir, Andrés Magnússon, Sigrún Magnúsdóttir og Sigurbjörg Sæmundsdóttir. Á myndina vantar Baldur Þorgeirsson. - mynd

Starfshópur hefur skilað Sigrúnu Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, tillögum að aðgerðum til að draga úr notkun plastpoka hér á landi. Ráðherra skipaði starfshópinn í lok janúar síðastliðinn með það að markmiði að hægt verði að draga úr notkun burðarplastpoka í áföngum.

Í skýrslu starfshópsins eru settar fram 12 tillögur sem miða að því að fækka notkun burðarplastpoka í 40 á mann á ári fyrir árslok 2025, en hópurinn áætlar að hver Íslendingur noti um 105 burðarplastpoka árlega. Gert er ráð fyrir öflugri aðkomu verslunargeirans að þeim verkefnum og aðgerðum sem lagðar eru til í skýrslunni. Tillögurnar lúta m.a. að því að verslanir komi sér saman um samstarf í „Nýjum pokasjóði“ sem vinni markvisst að því að draga úr notkun léttra burðaplastpoka, í samræmi við tilskipanir ESB á þessu sviði. Þá verði settur á laggirnar framkvæmdahópur verslunarinnar um að draga úr notkun plastpoka sem og samráðshópur undir forystu Umhverfisstofnunar um sama málefni. Unnið verði að fræðslu og kynningu fyrir almenning og starfsfólk í verslunargeiranum, tölfræðiupplýsingar um umfang burðarplastpokanotkunar hér á landi verði bættar og hindrað að lausnir varðandi flokkun og aðra meðhöndlun úrgangs hvetji til plastpokanotkunar almennings. Tillögurnar taka einnig til hagrænna stjórntækja á borð við tilmæli um lágmarksupphæð gjalds fyrir burðarpoka og breytingar á úrvinnslugjaldi. Loks verði unnin greining á umhverfisáhrifum mismunandi tegunda poka, s.s. plastpoka, margnota poka og lífbrjótanlegra poka.

Þá er í skýrslunni sett fram tillaga að tímasettri aðgerðaáætlun sem miðar að sama markmiði, þ.e. að draga úr notkun plastpoka hér á landi.

Starfshópurinn horfði m.a. til þingsályktunar Alþingis frá júlí 2015 um að draga úr plastpokanotkun, breytinga á EES-samningnum vegna plastpokanotkunar og tillögu Umhverfisstofnunar um hvernig draga megi úr plastpokanotkun hér á landi.

Í starfshópnum sátu fulltrúar Samtaka verslunar og þjónustu, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka iðnaðarins og Umhverfisstofnunar auk fulltrúa umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem leiddi starf hópsins.

Burðarpokar út plasti – skýrsla starfshóps (pdf)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum