Hoppa yfir valmynd
12. janúar 1999 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Dagur umhverfisins 25. apríl

Ríkisstjórnin ákvað í dag, að tillögu Guðmundar Bjarnasonar umhverfisráðherra, að lýsa 25. apríl sérstakan Dag umhverfisins. Dagurinn er hugsaður sem hvatning til skólafólks og almennings að kynna sér betur samskipti manns og náttúru og sem tækifæri fyrir stjórnvöld, félagasamtök og fjölmiðla til að efla opinbera umræðu um umhverfismál.

Umhverfisráðherra ákvað eftir samráð við fulltrúa áhugasamtaka og atvinnulífs að ástæða væri til þess að halda upp á sérstakan dag helgaðan umhverfismálum á Íslandi, eins og gert er í mörgum löndum. Alþjóðlegur dagur umhverfisins, skv. yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, er 5. júní, en sú dagsetning þótti ekki henta íslenskum aðstæðum, þar sem mikilvægt þótti að hvetja skólafólk til að vinna að verkefnum tengdum umhverfismálum. Því þótti 25. apríl henta vel, þar sem sá dagur ætti að henta skólafólki, hann er í sumarbyrjun þegar flestir fara að huga að útivist og hann er fæðingardagur Sveins Pálssonar, eins fyrsta náttúrufræðings Íslendinga. Sveinn var sá maður íslenskur sem e.t.v. fyrstur vakti máls á þeirri hugsun sem nú gengur undir heitinu "sjálfbær þróun", en hann skrifaði um eyðingu íslenskra skóga og sagði illa meðferð þeirra skaða hag komandi kynslóða.

Umhverfisráðuneytið hyggst halda upp á Dag umhverfisins á þessu ári m.a. með veitingu viðurkenninga fyrir starf að umhverfismálum, en það er von ráðuneytisins að sem flestir noti tækifærið og haldi upp á daginn á þann hátt sem hæfir tilefni hans.

Fréttatilkynning nr. 1/1999
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum