Hoppa yfir valmynd
5. september 2000 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fundur með Dominick Voynet, umhverfisráðherra Frakklands

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra átti í dag fund með Dominick Voynet umhverfisráðherra Frakklands í París. Dominick Voyent fer nú um þessar mundir einnig með formensku í umhverfisráðherraráði Evrópusambandsins. Á fundinum ræddi Siv Friðleifsdóttir um varnir gegn mengun hafsins, lífræn þrávirk efni og væntalegan fund aðildarríkja samningsins um loftslagsbreytingar.

Umhverfisráðherra lagði mikla áherslu á að niðurstaða næðist í samningum sem nú standa yfir um alþjóðlegan samning um takmörkun á losun lífrænna þrávirkra efna í hafið. Stefnt er að því að samningurinn verði undirritaður á ráðherrafundi sem haldinn verður í Stokkhólmi í vor. Evrópusambandið hefur komið að gerð samningsins með auknum þunga og því er mikilvægt að koma íslenskum sjónarmiðum á framfæri við sambandið á þessu stigi. Íslensk stjórnvöld áttu þátt í því að koma samningaviðræðum af stað um þennan samning og umhverfisráðherra lagði mikla áherslu á að farsæl niðurstaða næðist í þessu máli vegna hagsmuna okkar í sjávarútvegi. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra mun einnig ræða þessi mál á fundi umhverfisráðherra Norðurlanda sem hefst á Borgundarhólmi á morgun, miðvikudaginn 6. september.

Í París ræddi umhverfisráðherra um væntanlegan alþjóðlegan fund árið 2001, um varnir gegn mengun sjávar frá landi og leitaði eftir stuðningi Evrópusambandsins við aðkomu að undirbúningi fundarins. Jafnframt ítrekaði Siv Friðleifsdóttir íslensk sjónarmið, það er að mengun hafsins væri ennþá of neðarlega á forgangslista í umhverfismálum á alþjóðavettvangi. Þá ræddi umhverfisráðherra einnig um 6. fund aðildarríkja loftslagssamningsins sem fram fer í Haag í Hollandi dagana 13. – 24. nóvember n.k. og stöðu Íslands í því samhengi. Á fundinum var einnig fjallað um bindingu í gróðri, sveigjanleikaákvæði samningsins og sérstöðu Íslands.

Í gær hófst í Lyon í Frakklandi fundur sérfræðinga vegna undirbúnings aðildaríkjafundarins í Haag og stendur fundurinn yfir í 2 vikur.

Fréttatilkynning 16/2000
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum