Hoppa yfir valmynd
20. október 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti falið að gera tillögur um stofnun hamfarasjóðs

Ríkisstjórn Íslands hefur að tillögu forsætisráðherra samþykkt að fela umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að stýra starfshópi sem geri tillögur um stofnun sérstaks hamfarasjóðs. Skoðaður verði fýsileiki þess að til verði slíkur sjóður og jafnframt verði skoðaður samruni og/eða samþætting á starfsemi og verkefnum Ofanflóðasjóðs annars vegar og Bjargráðasjóðs hins vegar við hinn nýja sjóð. 


Með þessum breytingum verði umgjörð og stjórnsýsla um bótamál vegna náttúruhamfara treyst. Er þar horft til hamfara sem geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag og innviði þess. Lögð er áhersla á ljúka á þessu ári vinnu við mótun og gerð tillagna um bóta- og tjónamál með stofnun nýs heildstæðs sjóðs vegna náttúruhamfara eða samruna þeirra úrræða og sjóða sem nú þegar eru fyrir hendi hér á landi og taka á og koma að bóta- og tjónamálum vegna náttúruhamfara. 

Jafnframt verði gerðar tillögur um tekjuforsendur og fjármögnun slíks hamfarasjóðs með það að markmiði að langtímaáætlun ofanflóðavarna haldist og öll umsýsla varðandi bótamál og tjón verði öflug, skilvirkari og hagkvæmari en nú er, auk þess sem ferlar og reglur verði samræmdar. 

Jafnframt var samþykkt að fela fjármála- og efnahagsráðuneytinu að endurskoða lög og regluverk Viðlagatryggingar Íslands með það að markmiði að verðmæti og iðgjöld sem tengd eru opinberum mannvirkjum og almennum húseignum falli sem best undir tryggingavernd. Miðað er við að endurskoðun laganna verði lokið og lögð fram greinargerð um breytingar í ríkisstjórn eigi síðar en 1. mars 2016.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum