Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð

Svartifoss í Skaftafelli.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarðs. Frumvarpið, sem er í samræmi við bráðabirgðaákvæði laganna, felur m.a. í sér endurskoðun á stjórnfyrirkomulagi garðsins og eru réttaráhrif stjórnunar- og verndaráætlunar þjóðgarðsins skýrð.

Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, sem tóku gildi 1. maí 2007, er ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins skuli endurskoðað. Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði í byrjun árs 2013 starfshóp til að fara yfir stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins og gera tillögur til breytinga ef þurfa þyrfti. Hópurinn leitaði eftir sjónarmiðum helstu aðila sem að stjórn garðsins koma s.s. sveitarfélaga á starfssvæðinu, svæðisráða, útivistarsamtaka, umhverfisverndarsamtaka, stjórnar og framkvæmdastjóra og fleiri hagsmunaaðila. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum í ágúst 2013 og byggir frumvarpið á þeim auk þess sem litið er til ábendinga Ríkisendurskoðunar, er fram koma í skýrslu stofnunarinnar um rekstur og stjórnskipulag Vatnajökulsþjóðgarðs frá ágúst 2013. Þá er í frumvarpinu lagðar til aðrar breytingar á lögunum með hliðsjón af rekstri þjóðgarðsins frá gildistöku laganna 1. maí 2007.

Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu lúta að stöðu og ábyrgð framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs sem og ákvæðum um þjóðgarðsverði. Ítarlega er mælt fyrir um réttaráhrif stjórnunar- og verndaráætlunar þjóðgarðsins í frumvarpinu. Ný ákvæði um leyfisveitingar kveða á um að afla skuli leyfis vegna skipulagðra viðburða og verkefna í þjóðgarðinum, og er gert ráð fyrir að þjónustuaðilar sem hyggjast reka starfsemi í þjóðgarðinum geri um það samning við þjóðgarðinn, þar sem fram koma skilyrði fyrir starfseminni.

Umsögnum um frumvarpið skal skila í síðasta lagi 14. ágúst næstkomandi á netfangið [email protected] eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007

Heildarlög með breytingartillögum í wordskjali

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum