Hoppa yfir valmynd
12. júní 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ellefu tilnefndir til náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs

Loftslagsbreytingar eru þema verðlaunanna í ár.

Ellefu hafa verið tilnefndir til náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs en tilkynnt var um tilnefningarnar á Fundi fólksins í Vatnsmýrinni í Reykjavík í dag. Tvö íslensk fyrirtæki eru meðal tilnefndra, Carbon Recycling International og Orkuveita Reykjavíkur.

Þema verðlaunanna í ár er losun gróðurhúsalofttegunda og verða þau veitt fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem þróað hefur vöru eða uppfinningu eða stuðlað með öðrum skapandi hætti að minni losun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlöndum.

Sem kunnugt er komu náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í skaut Reykjavíkurborgar í fyrra en það var Siv Friðleifsdóttir, fulltrúi Íslands í dómnefnd verðlaunanna, sem tilkynnti um tilnefningarnar. Íslensku fyrirtækin tvö sem tilnefnd eru hafa bæði stuðlað að minni losun koltvíoxíðs út í andrúmsloftið. Carbon Recycling International sérhæfir sig í því að draga úr losun koltvísýrings frá eldsneyti sem hægt er að nota í flutningageiranum. Sú tækni sem fyrirtækið býr yfir gæti dregið úr losun koltvísýrings um allt að 100% og þar með valdið byltingu hvað varðar mengun frá flutningageiranum. Orkuveita Reykjavíkur miðlar orku og vatni til um 67% Íslendinga með hjálp jarðvarmaorku. Jarðvarmaorkan er meginskýringin á því að 85% orkunotkunar á Íslandi telst vera sjálfbær. Fyrirtækið er um þessar mundir að þróa aðferðir til að binda koltvísýring í berg til að draga úr losun og bæta umhverfið.

Aðrir tilnefndir eru:

  • danska fyrirtækið GoMore sem býður lausnir sem lúta að samakstri og að samnýta bifreiðar
  • Evangelísk-lútherska kirkjan í Finnlandi sem hefur unnið að umhverfismálum og sjálfbærni frá 2001
  • finnska sendingarþjónustan PiggyBaggy sem byggir á því að einstaklingar flytji vörur hverjir fyrir annan á daglegum ferðum sínum
  • orkufyrirtækið SEV í Færeyjum sem notast hvoru tveggja við vind- og vatnsorku
  • Norgesgruppen A/S í Noregi sem hefur mótað metnaðarfulla loftslags- og umhverfisáætlun sem á að tryggja sjálfbærni fyrirtækisins í framtíðinni
  • sænska kaffibrennslan Löfbergs sem hefur tekið í notkun viðamikið kerfi til að tryggja sjálfbærni og draga úr áhrifum kaffiframleiðslunnar á loftslagið
  • sænska fyrirtækið City Bikes sem býður reiðhjól til láns ókeypis og er fastur þáttur í borgum á borð við Stokkhólm, Gautaborg og Kaupmannahöfn
  • Uppsala klimatprotokoll í Svíþjóð sem er samstarfsnet fyrirtækja, félaga og opinberra stofnana sem veitir innblástur til loftslagsmiðaðrar fyrirtækjaþróunar og
  • Sixten Sjöblom á Álandseyjum sem framleiðir lífeldsneyti úr staðbundnum úrgangsafurðum.

Verðlaunin nema 350 þúsundum danskra króna (um 7 milljónum króna) og verða þau afhent við hátíðlega athöfn í Hörpu 27. október næstkomandi í tengslum við þing Norðurlandaráðs.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum