Hoppa yfir valmynd
10. júní 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Borkjarnasafn flyst á Breiðdalsvík

Borkjarnasýni úr Surtsey.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt fimm milljóna króna fjárveitingu vegna flutnings borkjarnasafns Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) frá Akureyri til Breiðdalsvíkur. Með flutningunum er húsnæðisþörf safnsins leyst á hagkvæman hátt auk þess sem 1 – 2 störf skapast á Breiðdalsvík með safninu til að byrja með.

Borkjarnar falla til við jarðboranir og eru nauðsynleg gögn við jarðvísindalegar rannsóknir. NÍ hefur það lögboðna hlutverk að varðveita borkjarnana sem í dag vega yfir 300 tonn. Safnið hefur verið hýst í húsnæði á Akureyri sem NÍ hefur haft á leigu. Eftir því sem safnið hefur stækkað hefur það húsnæði smám saman orðið of lítið sem hefur takmarkað aðgengi vísindamanna og annarra að borkjörnunum. Með flutningi safnsins á Breiðdalsvík kemst safnið í viðunandi húsnæði um leið og leigukostnaður lækkar.

Í fyrstu mun safnið skapa tækifæri fyrir 1-2 ný störf á Breiðdalsvík en það mun jafnframt styrkja Breiðdalssetrið (Walkersetrið) faglega með því að skapa aukin verkefni fyrir starfsmenn þess. Breiðdalssetrið er jarðfræðisetur og upplýsingarveita fyrir íslenska jarðfræði og eru þar starfandi tveir jarðfræðingar. 

Austurland er þekkt fyrir hversu fjölbreytilegar tegundir íslensks grjóts þar er að finna og eru fjölmörg steinasöfn starfrækt þar sem opin eru almenningi. Borkjarnasafnið styrkir því sérstöðu landsfjórðungsins að þessu leyti en það er fyrst og fremst ætlað vísindamönnum og öðrum sem þurfa aðgengi að borkjörnunum vegna rannsókna. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum