Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra kynnir sér stofnanir ráðuneytisins

Frá heimsókn í Náttúrufræðistofnun

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, heimsótti í vikunni fimm af stofnunum ráðuneytisins; Umhverfisstofnun, Úrvinnslusjóð, Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofu Íslands og Skipulagsstofnun. Í heimsóknunum kynnti ráðherra sér starfsemi stofnananna og ræddi við stjórnendur og starfsfólk þeirra.

Ráðherra heimsótti Umhverfisstofnun á miðvikudag þar sem hún heilsaði upp á starfsfólk og yfirstjórn stofnunarinnar kynnti henni meginstarfsemi stofnunarinnar. Að því loknu hitti hún starfsfólk og stjórnarformann Úrvinnslusjóð sem kynntu henni starfsemi sjóðsins og þróun hans undanfarin ár.

Frá heimsókn á Umhverfisstofnun.


Á fimmtudag sótti ráðherra Náttúrufræðistofnun Íslands heim þar sem stjórnendur fóru yfir helstu þætti í starfsemi stofnunarinnar. Að því loknu heilsaði ráðherra upp á starfsfólk, gekk um húsnæðið með forstjóra og skoðaði fágætt og yfirgripsmikið gripasafn stofnunarinnar, en eitt meginhlutverk hennar er að varðveita sýnishorn af öllum fyrirbrigðum í íslenskri náttúru.

Frá Náttúrufræðistofnun lá leiðin í Veðurstofu Íslands þar sem stjórnendur tóku á móti ráðherra og kynntu henni stofnunina og ólík þjónustuhlutverk hennar. Þá skoðaði ráðherra vaktherbergi Veðurstofu, þar sem m.a. er fylgst með veðri og jarðhræringum og leit inn í útsendingarklefa Veðurstofu, þaðan sem veðurfréttir eru lesnar í Ríkisútvarpið.

 

Síðasta heimsókn vikunnar var í dag, föstudag, þegar ráðherra sótti Skipulagsstofnun heim. Eftir að hafa gengið um húsnæðið og skoðað uppdrætti settist hún niður með starfsfólki stofnunarinnar yfir kaffisopa og fékk kynningu á starfseminni.

Voru heimsóknirnar hinar gagnlegustu fyrir ráðherra að glöggva sig á starfsemi þessara stofnana en á næstu vikum mun ráðherra sækja fleiri stofnanir ráðuneytisins heim.




Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum