Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2000 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Viðurkenningar umhverfisráðuneytisins á Degi umhverfisins


Umhverfisráðuneytið veitti í dag árlegar viðurkenningar til fyrirtækja og fjölmiðla í tilefni af Degi umhverfisins, 25. apríl. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og starfandi umhverfisráðherra, afhenti viðurkenningarnar við athöfn í húsnæði Vatnsveitu Reykjavíkur í Gvendarbrunnum.

Tveir kvikmyndagerðarmenn skipta með sér að þessu sinni viðurkenningum fyrir vandaða umfjöllun um umhverfismál. Magnús Magnússon hlýtur viðurkenningu fyrir myndina "Undir smásjánni - Mývatn", sem fjallar um sérstæða náttúru Mývatns og þær rannsóknir sem fram fara á lífríki þess, m.a. til þess að athuga hvaða áhrif námuvinnsla á botni vatnsins kann að hafa á vistkerfið. Valdimar Leifsson hlýtur viðurkenningu fyrir myndina "Þingvallavatn: Á mörkum austurs og vesturs", sem fjallar um samspil náttúru og mannlíf í Þingvallasveit. Sérstaklega er fjallað um stórurriðann í vatninu og Soginu, hvernig Sogsvirkjanir spilltu hrygningarstöðvum hans og hvernig menn eru nú að reyna að endurheimta þær að hluta.

Viðurkenningu umhverfisráðuneytisins til fyrirtækja hlýtur að þessu sinni Borgarplast hf. Í byrjun árs 1998 hófst Borgarplast hf. handa við að útfæra gæðakerfi fyrirtækisins þannig að það tæki jafnframt til umhverfismála og uppfyllti þá einnig kröfur alþjóðlega umhverfisstaðalsins ÍST EN ISO 14001. Fékk fyrirtækið vottun skv. þeim staðli í júlí 1999 fyrir starfstöð sína á Seltjarnarnesi, fyrst fyrirtækja í eigu Íslendinga, en ÍSAL hafði áður fengið slíka vottun. Á þessum tíma höfðu aðeins milli 6-7.000 fyrirtæki í öllum heiminum fengið slíka vottun. Borgarplast hf. hefur sett sér sína eigin umhverfisstefnu gagnvart rekstri sínum, þar sem segir að Borgarplast hf. sé í fararbroddi og stuðli að góðri ímynd Íslands á sviði umhverfismála.

Borgarplast hf. fær viðurkenninguna að þessu sinni vegna umhverfisstefnu sinnar, vinnu að gæðamálum og þeirrar vinnu sem Borgarplast hf. hefur lagt í að fá gæðavottun bæði samkvæmt ISO 9001 og ekki síst fyrir vottun samkvæmt umhverfisstaðlinum ISO 14001.

Fréttatilkynning nr. 13/2000
Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum