Hoppa yfir valmynd
2. desember 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vinna hafin við skoðun á samlegð stofnana

Frá fyrsta fundi stýrihópsins.

Fyrsti fundur hjá stýrihópi vegna skoðunar, svonefndrar frumathugunar, á samlegð nokkurra stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins var haldinn í ráðuneytinu á dögunum.

Stofnanirnar sem um ræðir eru Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, Umhverfisstofnun vegna verkefna á sviði vöktunar og Veðurstofa Íslands. Þá verða jafnframt skoðaðir mögulegir samstarfsfletir við Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði.

Tilgangur verkefnisins er m.a. að meta þarfir, skilgreina markmið og framtíðarsýn og leiða í ljós hvort sameining stofnananna eða samþætting verkefna þeirra sé góður kostur. Í stýrihópnum sitja Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn, Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, Guðný Lára Ingadóttir, ritari ráðuneytisstjóra, Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri á skrifstofu hafs, vatns og loftslags, Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, Jón Geir Pétursson, skrifstofustjóri á skrifstofu landgæða, Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR, Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri, Símon Ólafsson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði, Stefán Guðmundsson, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármála og rekstrar, Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu umhverfis og skipulags og Guðrún Ragnarsdóttir, hjá ráðgjafafyrirtækinu Strategíu.

Á grundvelli niðurstaðna stýrihópsins verður tekin ákvörðun um hvort sameina eigi stofnanir eða samþætta verkefni þeirra á þessu sviði. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili skýrslu og tillögum fyrir 1. mars á næsta ári. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum