Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2000 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Prentsmiðjan Hjá GuðjónÓ fær Norræna umhverfismerkið.

Norræna umhverfismerkið hefur verið veitt prentsmiðjunni Hjá GuðjónÓ fyrir prentverk sem fullnægir kröfum merkisins um fjölmarga þætti sem snúa að umhverfismálum. Hjá GuðjónÓ er fyrsta íslenska prentsmiðjan sem hlýtur þessa viðurkenningu, en eitt íslenskt fyrirtæki hefur áður fengið merkið á framleiðslu sína, Frigg hf. á þvottaefnið Maraþon milt.

Viðmiðunarreglur fyrir prentað efni voru samþykktar 1996 af Norrænu umhverfismerkisnefndinni (NMN) voru það fyrstu reglurnar sem settar voru fyrir verkferli frá upphafi til loka, en voru ekki bundnar ákveðnum vöruflokki. Í hefðbundinni framleiðslu á prentuðu efni koma mörg mengandi efni til sögu og áhættan á mengun á ferlinum er mikil. Norræna umhverfismerkið gerir kröfur varðandi losun á þungmálmum við filmuframleiðslu og prentun og strangar reglur gilda um notkun á prentlitum og hreinsiefnum, sem mega ekki innihalda rokgjörn leysiefni né þungmálma. Allan úrgang sem myndast við framleiðslu prentaðrar vöru þarf að flokka og koma til endurvinnslu eða ábyrgrar förgunar. Prentsmiðjan þarf að halda nákvæmt bókhald yfir alla þætti sem notaðir eru í prentferlinum, s.s. um innkaup hráefna, orku- og vatnsnotkun og um öll úrgangsefni, en prentsmiðjunni ber að minnka það hlutfall af úrgangsefnum sem fer til förgunar.

Það kostar mikla vinnu að standast allar þær kröfur sem settar eru fram í viðmiðunarreglunum um Norræna umhverfismerkið, en sú vinna ætti að skila sér í sparnaði í innkaupum, orkunotkun o.fl. Þannig ætti verðið á prentaðri vöru sem ber Norræna umhverfismerkið ekki verða hærra en hjá sambærilegri vöru og þegar til lengri tíma er litið ætti samkeppnisstaða fyrirtækja sem bera Norræna umhverfismerkið að styrkjast, bæði vegna sparnaðar í ýmsum rekstrarþáttum og vegna aukinnar eftirspurnar eftir umhverfismerktum vörum.

Á Norðurlöndum eru nú um 400 prentsmiðjur sem hafa leyfi til að nota Norræna umhverfismerkið og fjölgar þeim um 10-15 í hverju mánuði. Vonir standa til að fleiri íslenskar prentsmiðjur fylgi í kjölfar Hjá GuðjónÓ.

Fréttatilkynning nr. 6/2000
Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum