Hoppa yfir valmynd
26. júní 2014 Matvælaráðuneytið

Öflugt og skapandi lífhagkerfi er stóra tækifæri Norðurlandanna

Norrænir ráðherrar á Selfossi
Norrænir ráðherrar á Selfossi

Árlegur fundur Norrænu ráðherranefndarinnar um fiskveiðar og fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt var haldinn á Selfossi í dag. Ísland gegnir formennsku í ráðherranefndinni og stýrði Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra fundinum.

Meginumræðan á fundinum fjallaði um þær áskoranir sem fylgja loftslagsbreytingum og hlýnun jarðar á náttúruauðlindir og frumatvinnuvegina á Norðurlöndum og á heimsvísu. Ráðherrarnir voru á einu máli um að mikilvæg leið til að mæta þessum áskorunum sé að styrkja og efla lífhagkerfi (bio-økonomi) Norðurlandanna. Hugtakið lífhagkerfi nær yfir allar lífauðlindir, samspil þeirra og samhengi og áhrif þeirra á efnahagslega, umhverfislega og félagslega þætti. Með því að vinna markvisst að því að draga úr  sóun ekki síst matvæla og tryggja sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda má auka til muna verðmætasköpun, heilbrigðari hagvöxt og velmegun til framtíðar.

Á fundinum var einhugur um að Norðurlöndin hefðu allar forsendur til og ættu að stefna að því leynt og ljóst að vera í forystu á heimsvísu hvað varðar þróun lífhagkerfisins. Norrænar lausnir og þekking geta þannig orðið lykilinn að því að stuðla að grænum hagvexti og sjálfbærri þróun.

Öflug nýsköpun og rannsóknir í samstarfi við fyrirtæki þvert á atvinnugreinar er lykilforsendan fyrir því að ná þeim árangri sem stefnt er að. Á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar er unnið að mörgum verkefnum á þessu sviði. Má þar  sérstaklega nefna formennskuverkefni Íslands NordBio auk verkefna um lífhagkerfi heimskautasvæðanna.

Í tengslum við ráðherrafundinn var haldin ráðstefna um lífhagkerfið á Norðurlöndum. Þar komu fram fjölmörg dæmi um nýsköpun og þróun varðandi bætta nýtingu lífrænna auðlinda og afurða þeirra. Meðal annars gafst ráðstefnugestum tækifæri á að bragða á ýmsum  nýjum afurðum frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi. Einnig voru sýndar vel heppnaðar lausnir sem nú þegar eru komnar til framkvæmda. Má þar meðal annars nefna þróun umbúða sem auka geymsluþol fersks fisks þannig að nú er hægt að koma honum á erlendan markað með skipum og draga þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda um 95% miðað við að senda slíka farma með flugi.

Norrænir ráðherrar á Selfossi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum