Hoppa yfir valmynd
13. maí 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Hekluskógar efldir

Hekla séð úr Þjórsárdal

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur veitt Hekluskógum þrjár milljónir króna til kaupa á birkiplöntum. Markmiðið með fjárveitingunni er að efla verkefnið og auka umfang skógræktar í nágrenni Heklu. Stefnt er að því að kaupa um 80.000 birkiplöntur fyrir þessa fjármuni til gróðursetningar á starfssvæði Hekluskóga.   

Hekluskógar voru formlega stofnaðir árið 2007 en markmið með verkefninu er að verja jarðveg fyrir mögulegum áföllum vegna öskufalls með því að endurheimta birkiskóga og kjarrlendi á stórum, samfelldum svæðum í nágrenni Heklu. Slík gróðursamfélög draga mjög úr öskufoki í kjölfar eldgosa eins og sannaðist á Þórsmerkursvæðinu í kjölfar Eyjafjallajökulsgossins.

Stefnt er að því að endurheimta birkiskóga á rúmlega 90 þúsund hekturum lands sem er innan starfssvæðis Hekluskóga. Stór hluti þessa lands er lítið gróinn og á hluta þess er sandfok og mikið rof. Megin viðfangsefnin eru því að stöðva sandfok og græða upp illa farið land til að bæta skilyrði fyrir trjágróður, og gróðursetja birki, reynivið og íslenskar víðitegundir í lundi þaðan sem þessar tegundir geta sáð sér út á nokkrum áratugum yfir allt svæðið.

Rannsóknir og reynsla hafa sýnt að með uppgræðslu illa farins lands er hægt að skapa góð skilyrði fyrir landnám þessara tegunda. Þannig miða aðgerðir á svæðinu fyrst og fremst að því að örva gróðurframvindu, fremur en að um samfellda ræktun verði að ræða.

Hekluskógar eru langtímaverkefni sem áætlað er að taki 40-50 ár. Þegar hafa verið gróðursettar rúmlega 2 milljónir trjáplantna í trjálundi á alls 1100 hekturum innan starfssvæðisins. Verkefnið nýtur aðstoðar rúmlega 200 landeigenda og ýmissa annarra sjálfboðaliðahópa sem hafa gróðursett trjáplöntur í starfssvæði Hekluskóga. Nokkur rannsóknaverkefni hafa nýtt sér Hekluskóga sem starfssvæði og hafa fjölmörg nemendaverkefni litið þar ljós á síðustu árum.

Fjárveitingin nú gerir Hekluskógum kleyft að fjölga gróðursetningarsvæðum þetta sumarið og skapa nýjar fræuppsprettur af birki.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum