Hoppa yfir valmynd
4. maí 2000 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Heimsókn Joe Jacobs orkumálaráðherra Írlands


Á morgun 5. maí kemur Joe Jacobs orkumálaráðherra Írlands til landsins til fundar við Siv Friðleifsdóttur umhverfisráðherra. Auk orkumála fer Joe Jacobs einnig með málefni geislavarna og þar með kjarnorkuendurvinnslustövarinnar í Sellafield. Fundurinn fer fram í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu og munu ráðherrarnir ræða sameiginleg hagsmunamál er varða geislamengun frá Sellafield endurvinnslustöðinni.

Íslensk stjórnvöld hafa um árabil fylgst með og haldið uppi mótmælum vegna losunar geislavirks úrgangs í hafið frá endurvinnslustöðinni í Sellafield. Síðastliðin 10-15 ár hefur Ísland á vettvangi OSPAR samningsins um verndun Norðaustur-Atlantshafsins ítrekað flutt tillögur um hertar reglur um losum geislavirkra efna í hafið. Írar og Íslendingar hafa unnið náið saman á vettvangi OSPAR samningsins að sameiginlegum hagsmunum varðandi vernd hafsins. Á embættismannafundi OSPAR samningsins sl. sumar unnu Írar í nánu samstarfi við fulltrúa Íslands og Danmerkur að tillögu um að þrýsta enn frekar á um aðgerðir.

Að ósk umhverfisráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur voru málefni endurvinnslustöðvarinnar í Sellafield tekin á dagskrá fundar norrænu umhverfisráðherranna á Mývatni sl. sumar. Í framhaldi af þeim fundi komu ráðherrarnir á framfæri sameiginlegum mótmælum við breska umhverfisráðherrann þar sem þeir lýstu sérstökum áhyggjum sínum vegna losunar technetium-99 frá Sellafield. Jafnframt skoruðu þeir á bresk stjórnvöld að flýta aðgerðum til að ná markmiðum þeim sem Bretar hafa skuldbundið sig til samkvæmt OSPAR samningnum.

Skýrsla sú sem birt var í vetur um bágborið ástand öryggismála í Sellafield bætti ekki úr skák og varð hún tilefni þess að norrænu umhverfisráðherrarnir sendu sameiginlega yfirlýsingu til breskra stjórnvalda þar sem fyrri mótmæli eru ítrekuð og jafnframt bent á að endurvinnsla á kjarnorkueldsneyti sé ein helsta orsök mengunar af völdum geislavirkra efna í Norður Atlantshafi.

Fundur þeirra Jacobs og Sivjar Friðleifsdóttur er m.a. ætlaður til undurbúnings næsta fundi OSPAR í Kaupmannahöfn sem haldinn verður í lok júní en þar verða málefni kjarnorkuendurvinnslustöðva ofarlega á baugi.

Fundur ráðherranna hefst kl 10:30 og er ljósmyndun heimiluð í upphafi fundar. Í lok fundarins (um 11:30) sitja ráðherrarnir tveir fyrir svörum fréttamanna í Ráðherrabústaðnum.

Frekari upplýsingar gefur Einar Sveinbjörnsson í síma 896-4189.

 


Fréttatilkynning nr. 14/2000
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum