Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Góðar umræður á Umhverfisþingi

Kynning Grenivíkurskóla

Líflegar umræður sköpuðust um skipulag lands og hafs, sjálfbæra þróun og samþættingu verndar og nýtingar sem voru meginstefin á VIII. Umhverfisþingi sem haldið var í Hörpu sl. föstudag. Erindi og innlegg þinggesta verður mikilvægt veganesti fyrir áframhaldandi vinnu og stefnumótun í þessum málaflokkum.

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpaði þingið við setningu þess og fjallaði m.a. um mikilvægi þess að stuðla að jafnvægi milli verndar og nýtingar auðlinda. Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi skipulagsmála og greindi frá því að við gerð næstu landsskipulagsstefnu verði m.a. horft til leiðbeinandi skipulags landnotkunar. Sagði hann brýnt að hefjast handa við að ná á heildstæðan hátt yfir einstaka þætti landnotkunar og áforma þar að lútandi. Nefndi hann í því sambandi atriði á borð við landgræðslu, ferðaþjónustu og afþreyingu, friðlýst svæði og náttúruvernd, orlofshúsabyggð, sauðfjár- og hrossabeit, túnrækt, kornrækt, repjurækt, skógrækt og endurheimt votlendis svo það helsta sé talið.

Aðalræðumaður dagsins var Ásdís Hlökk Theódórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, sem ræddi um skipulag og sjálfbærar lausnir og þau undirliggjandi atriði sem liggja til grundvallar skipulagsgerð. Þá ræddi hún hvernig mannfjöldaþróun og lífstílsþróun hefur áhrif á skipulag – og öfugt, þ.e. hvernig áherslur í skipulagi geta haft áhrif á ákvarðanir okkar í framtíðinni.

Systkinin Birta María Jónsdóttir og Ágúst Jónsson úr Grenivíkurskóla sögðu frá umhverfisstarfi nemenda skólans sem hafa verið iðnir við moltuframleiðslu og notað afurðirnar til uppgræðslu með góðum árangri.

Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands flutti framsögu um framtíðarsýn og skipulag varðandi vernd og nýtingu lands og Hafdís Hafliðadóttir, sviðsstjóri á Skipulagsstofnun, fór með framsögu um ný tækifæri í skipulagi hafs og stranda. Þessi tvö málefni voru svo meginþemu málstofa eftir hádegi þar sem fjölmörg sjónarmið komu fram í stuttum erindum og umræðum þinggesta.

Glærur og annað efni sem tengist þinginu má nálgast hér á dagskrárvef þingsins.  

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum