Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Nefnd um endurskoðun reglugerðar um fráveitur og skólp skipuð

Í fjöru

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað nefnd um endurskoðun reglugerðar um fráveitur og skólp sem innleiðir tilskipun ESB um hreinsun skólps frá þéttbýli.

Nefndinni er ætlað að einfalda ákvæði reglugerðarinnar og gera hana skýrari og bæta úr skráningu upplýsinga um fráveitur. Setja á viðmiðunargildi um efnainnihald skólps sem losað er frá iðnaðarstarfsemi í fráveitur og skerpa á ábyrgð leyfishafa starfsleyfa fyrir iðnaðarstarfsemi um hreinsun frárennslis. Sömuleiðis er ætlunin að skerpa tengsl við reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft mengun í för með sér.

Stefnt er að því að endurskoðuð reglugerð verði öflugt tæki til að vernda vatnsgæði og lífríki á losunarsvæðum fráveitna, auka líftíma fráveitna og heilsufar íbúa.

Í nefndinni sitja auk fulltrúa ráðuneytisins, fulltrúar Umhverfisstofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífisins og Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi en að auki mun nefndin leita til annarra haghafa.

Stefnt er að því að nefndin skili af sér drögum að nýrri reglugerð fyrri hluta árs 2014 eftir samráð við þá sem málið varðar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum