Hoppa yfir valmynd
14. júlí 2003 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum tvöföldunar Reykjanesbrautar staðfestur með skilyrðum.


Í dag hefur umhverfisráðherra kveðið upp úrskurð vegna kæra á úrskurð Skipulagsstofnunar frá 27. nóvember 2002, um mat á umhverfisáhrifum tvöföldunar Reykjanesbrautar, frá Fífuhvammsvegi í Kópavogi að Álftanesvegi í Garðabæ.

Framkvæmdin er fyrirhuguð tvöföldun Reykjanesbrautar úr tveimur akreinum í fjórar, á 4 km kafla frá Fífuhvammsvegi í Kópavogi að Álftanesvegi í Garðabæ. Einnig er fyrirhuguð gerð þriggja mislægra gatnamóta á umræddum vegakafla, þ.e. við Arnarnesveg, Vífilsstaðaveg og Urriðaholtsbraut. Framkvæmdaraðilar eru Vegagerðin, Kópavogsbær og Garðabær. Niðurstaða Skipulagsstofnunar er sú að fallist er á fyrirhugaða framkvæmd.

Ráðuneytinu bárust fimm kærur vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar en baki þeim kærum standa 124 íbúar í Garðabæ. Niðurstaða úrskurðarins ráðuneytisins er eftirfarandi miðað við breyttar forsendur frá úrskurði Skipulagsstofnunar:

Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 27. nóvember 2002 um mat á umhverfisáhrifum tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Fífuhvammsvegi í Kópavogi að Álftanesvegi í Garðabæ, er staðfestur með eftirfarandi skilyrðum miðað við þær forsendur að hávaði vegna umferðar á veginum verði ekki meiri en 55 dB(A) í aðliggjandi íbúðarhverfum:


      1. Framkvæmdaraðili láti, annars vegar nú þegar á þessu sumri og hins vegar á komandi vetri, í samráði við heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, gera tvennar mælingar á hljóðstigi við Reykjanesbraut með viðurkenndum mæliaðferðum, sbr. liður 3.2.1. í viðauka reglugerðar um hávaða, þannig að unnt verði að meta hugsanleg frávik frá útreikningum á hljóðstigi samkvæmt reiknilíkani og taka mið af þeim við hönnun hljóðvarna.

      2. Framkvæmdaraðili hafi samráð við fulltrúa íbúa aðliggjandi íbúðarhverfa um hönnun og útfærslu hljóðvarna og að leitast verði við að haga hljóðvörnum með þeim hætti að óæskileg umhverfisáhrif verði sem minnst.


Úrskurðinn í heild sinni má finna á slóðinni www.rettarheimild.is undir stjórnvaldsúrskurðir/umhverfisráðuneyti.

Fréttatilkynning
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum