Hoppa yfir valmynd
5. júní 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Alþjóðadagur umhverfisins – Hugsið.Borðið.Hlífið

Grænmeti.
Grænmeti.

Alþjóðadagur umhverfisins er í dag. Þema dagsins má útleggja sem „Hugsið.Borðið.Hlífið“ (Think.Eat.Save.) og miðar að því að vekja fólk til umhugsunar um þá miklu matarsóun sem viðgengst dag hvern í heiminum.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) áætlar að árlega fari 1,3 milljarðar tonna matvæla til spillis. Þetta er jafn mikill matur og framleiddur er árlega í allri Afríku sunnan Sahara eyðimerkurinnar.  Á sama tíma fer ein af hverjum sjö manneskjum í heiminum svöng að sofa og yfir 20 þúsund börn deyja daglega úr næringarskorti.

Þessar staðreyndir endurspegla verulegt ójafnvægi þegar kemur að lífsstíl fólks sem aftur hefur stórfelld áhrif á umhverfið. Þema dagsins er því ætlað að auka meðvitund um þau áhrif sem matarvenjur fólks hafa á umhverfið og hvetja fólk til að taka upplýstar ákvarðanir um matarinnkaup sín og neyslu.

Jörðin er undir gífurlegu álagi vegna matarframleiðslu fyrir þá 7 milljarða fólks sem hana byggja. Á sama tíma áætlar FAO að þriðjungur matarframleiðslu heimsins sé sóað eða hent. Matarsóun veldur því stórfelldri ásókn í auðlindir jarðar.

Ef mat er sóað þýðir það að þeim auðlindum sem notaðar voru til matarframleiðslunnar er einnig sóað. T.d. þarf um þúsund lítra af vatni til að framleiða einn lítra af mjólk og um 16 þúsund lítra af vatni þarf í fóður nautgripa til að búa til einn hamborgara. Gróðurhúsalofttegundir, sem verða til í framleiðsluferlinu, fara einnig út í andrúmsloftið til einskis þegar mat er sóað.

Um 25% alls lands á jörðinni fer í dag undir matarframleiðslu sem einnig krefst 70% allrar vatnsnotkunar á jörðinni, 80% skógareyðingar og 30% losunar gróðurhúsalofttegunda. Matarframleiðsla er sömuleiðis stærsti orsakavaldurinn þegar kemur að fækkun tegunda og breyttri landnotkun.

Með því að taka upplýstar ákvarðanir í matarvali er t.d. hægt að velja sérstaklega matvæli sem hafa minni umhverfisáhrif í för með sér, s.s. lífrænar vörur sem eru framleiddar án notkunar eiturefna. Með því að kaupa mat sem framleiddur er nálægt heimili þess sem kaupir er einnig dregið úr áhrifum vegna flutninga.

Skilaboðin eru því skýr: Hugsið áður en þið borðið og hlífið þannig umhverfinu. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum