Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tuttugu milljónir til landvörslu á fjölsóttum ferðamannastöðum

Dyrhólaey.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í vikunni 20 milljóna króna fjárveitingu til aukinnar landvörslu á friðlýstum svæðum og vinsælum ferðamannastöðum. Er þetta gert til að bregðast við  versnandi ástandi fjölsóttra ferðamannastaða vegna aukins ágangs ferðafólks.  

Mikil aukning ferðamanna til Íslands kallar á verulegt átak í uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum, en jafnframt verulega aukna landvörslu s.s. fræðslu, umsjón og eftirlit. Versnandi ástand fjölsóttra ferðamannastaða má einkum rekja til mikils ágangs ferðafólks. Gangi spár eftir má gera ráð fyrir að komur ferðamanna til landsins nái einni milljón innan fárra ára. Samkvæmt Ferðamálastofu nam fjöldi erlendra gesta um Leifsstöð um 647 þúsundum á árinu 2012 sem er tæplega 20% aukning frá árinu áður.

Stjórnvöld hafa að undanförnu kappkostað að bregðast við þeirri gífurlegu fjölgun ferðamanna sem verið hefur á undanförnum árum. Samkvæmt fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar verður á næstu þremur árum veitt 500 milljónum króna árlega til uppbygginar ferðamannastaða og 250 milljónum króna árlega til uppbyggingar þjóðgarða og friðlýstra svæða.

Með þessari ráðstöfun ríkisstjórnarinnar ættu fljótlega að sjást jákvæðar breytingar á þeim svæðum sem fjármunum er veitt til.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum