Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ný efnalög samþykkt

Efni og efnablöndur.
Efni og efnablöndur.

Alþingi hefur samþykkt ný efnalög en meginmarkmið þeirra er að tryggja öryggi neytenda við meðferð á efnum og efnablöndum þannig að þau valdi ekki tjóni á heilsu manna, dýra eða umhverfi. 

Allt frá setningu fyrstu laga um eiturefni og hættuleg efni árið 1968 hefur heilsa manna og dýra verið þungamiðja laganna en nú er bætt við umhverfisþættinum þannig að taka skuli enn fremur mið af efnum sem hafa eða geta haft skaðleg áhrif á umhverfið.

Eldri lög nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni eru að grunninum til frá árinu 1968 og eru því komin til ára sinna. Þá hafa önnur lög tekið gildi samhliða þeim lögum, þ.e. lög nr. 45/2008 um efni og efnablöndur, og fjöldi reglugerða sem eiga sér stoð í þeim lögum.  Ný efnalöggjöf leysir þessa eldri löggjöf af hólmi en með því er eftirlits- og leyfisveitingarkerfi vegna efna einfaldað og gert skilvirkara auk þess sem íslensk löggjöf er nú samræmd þeirri evrópsku.

Með löggjöfinni er komið á eftirliti með öllum þáttum efna á einum stað þ.e. hjá Umhverfisstofnun. Þá miðar ný uppbygging eftirlitsins að því að efnainnihald vara sé kannað áður en þær fara á markað í því skyni að auka öryggi neytenda. Þannig er betur tryggt að allir landsmenn búi við öflugt efnaeftirlit. Gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun útbúi eftirlitsáætlun til þriggja ára í senn sem m.a. mun innihalda sértæk eftirlitsverkefni þar sem áhersla verður lögð á öryggi almennings og umhverfisvernd.

Í lögunum er að finna nýmæli varðandi fjármögnun eftirlits, þvingunarúrræði og viðurlög og verður Umhverfisstofnun m.a. með heimild til að beita stjórnvaldssektum, þannig að hægt er að taka strax á málum er varða frávik frá löggjöfinni.

Efnalög.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum