Hoppa yfir valmynd
19. mars 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grænir dagar Háskóla Íslands settir

Frá setningu Grænna daga.
Frá setningu Grænna daga.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, setti Græna daga Háskóla Íslands í gær. Gaia, félag nemenda í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ stendur fyrir þessari fimm daga dagskrá þar sem umhverfismál eru sett í forgrunn í þeim tilgangi að styrkja umhverfisvitund innan sem utan Háskólans. Við setninguna hlaut Guðni Elísson, prófessor við Hugvísindadeild HÍ, umhverfisverðlaun Grænna daga.

Gaia hefur staðið fyrir Grænum dögum í HÍ frá árinu 2008 en meginþema daganna í ár er sköpun og sjálfbærni í hönnun og listum. Viðburðir sem í boði verða á dögunum eru meðal annars hádegisfyrirlestrar, kvikmyndasýningar, fataskiptamarkaður, listverkasýning, vinnustofur, spurningakeppni og fleira.

Í ávarpi sínu við setninguna sagði ráðherra þekkingu og umhverfisfræðslu eitt af mikilvægustu tækjunum í baráttunni fyrir sjálfbærri þróun. Þá lagði hún áherslu á hversu miklu máli hönnun vöru skiptir fyrir umhverfisáhrif hennar, en hönnunin stýri m.a. því hversu lengi vara endist, hvenær hún verður að úrgangi og hvernig sá úrgangur verður.

Auk ráðherra tóku til máls rektor HÍ, Kristín Ingólfsdóttir og Davíð Fjölnir Ármannsson, formaður Gaiu en einnig afhenti hann Guðna Elíssyni prófessor umhverfisverðlaun Grænna daga. Verðlaunin hlýtur Guðni fyrir skrif sín um umhverfismál og þá sérstaklega um loftslagsbreytingar. Guðni hefur bent á hvernig stjórnmálaöfl hafa ítrekað gert lítið úr niðurstöðum vísindalegra rannsókna á sviði umhverfismála og ýtt til hliðar varnaðarorðum fræðimanna um umhverfisáhrif framkvæmda og gjörða mannfólksins. Í niðurstöðu dómnefndar, sem ákveður hver hlýtur verðlaunin ár hvert, segir að skrif Guðna Elíssonar séu mikilvæg í baráttunni fyrir bættri umhverfisvitund og þeim markmiðum sem þjóðir setja sér til að nálgast sjálfbæra þróun og tryggja jafnan rétt komandi kynslóða.

Verðlaunaafhending á Grænum dögum. Verðlaunaafhending á Grænum dögum. Guðni Elísson, prófessor við Hugvísindadeild HÍ, hlaut umhverfisverðlaun Grænna daga og tekur hér við þeim úr höndum Davíðs Fjölnis Ármannssonar, formanns Gaiu..


Meðal viðburða á Grænum dögum er fjarfyrirlestur ameríska arkitektsins og hönnuðarins Williams McDonough sem verður í beinni útsendingu frá San Francisco í stofu 105 á Háskólatorgi kl. 17 í kvöld. McDonough er þekktastur fyrir Cradle-to-cradle hugmyndafræði sína eða „frá vöggu til vöggu” en hún hefur það að markmiði að hjálpa framleiðendum og hönnuðum að takmarka áhrif framleiðslu sinnar og vara á umhverfi og náttúru.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum