Hoppa yfir valmynd
15. mars 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Mygluvandamál til skoðunar hjá Mannvirkjastofnun

Hús í Reykjavík
Byggingar í Reykjavík.

Til skoðunar er hjá Mannvirkjastofnun hvort grípa þurfi til ráðstafana til að lágmarka hættu á myglumyndun í byggingum. Algengt er að myglusveppir myndist vegna þess að rangt er staðið að efnisvali, útfærslum og/eða framkvæmd við húsbyggingar.

Umhverfis- og auðlindaráðherra óskaði 12. febrúar sl. eftir áliti Mannvirkjastofnunar á því hvort bregðast þurfi við vegna vísbendinga um aukna tíðni myglusveppa í húsnæði. Var stofnunin m.a. beðin um að meta hvort þörf væri á breytingu á byggingarreglugerð til að minnka líkur á þessu vandamáli. 

Í svari Mannvirkjastofnunar kemur fram að ástæður þess að myglusveppir myndast í húsnæði megi oft á tíðum rekja til þess að rangt er staðið að hönnun varðandi efnisval, rakaþéttingu, loftun og annan frágang eða að framkvæmd sé ekki í samræmi við hönnun. Í byggingarreglugerð sem tók gildi á síðasta ári er tekið á þessum atriðum í sérstökum kafla um raka (kafli 10.5).

Þá bendir stofnunin á að efla þurfi almenna þekkingu á byggingareðlisfræði og því flókna samspili sem á sér stað í aðdraganda myglumyndunar. Hvetja beri til frekari rannsókna, fræðslu og útgáfu leiðbeininga um góðar byggingaraðferðir. 

Fram kemur í bréfi Mannvirkjastofnunar að stofnunin muni á næstunni leita samstarfs við sérfræðinga um það hvaða aðferðum sé skynsamlegt að beita í því skyni að lágmarka hættu á myglumyndun í íbúðarhúsnæði. Jafnframt  verður skoðað hvort efla þurfi eftirlit með því að fylgt sé ákvæðum byggingarreglugerðar er lúta að því að koma í veg fyrir óæskilegan raka í húsum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum