Hoppa yfir valmynd
6. mars 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Frumvarp um meðhöndlun úrgangs kynnt í ríkisstjórn

Úrgang má víða nota sem hráefni

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur lagt fram í ríkisstjórn frumvarp um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs. Í frumvarpinu er m.a. lögð til ákveðin forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs, sem felur í sér að dregið verði úr myndun úrgangs. Sá úrgangur sem myndast verði endurnotaður, endurunninn eða endurnýttur og loks fargað ef ekki reynist unnt að nýta hann.

Markmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir eða draga úr óæskilegum áhrifum sem myndun og meðhöndlun úrgangs hefur í för með sér. Gert ráð fyrir að ráðherra gefi út almenna stefnumörkun til að koma í veg fyrir myndun úrgangs og bæta endurnotkun, endurvinnslu og förgun hans. Þá er lagt til að svæðisáætlanir sveitarfélaga komi í stað landsáætlunar ráðherra um meðhöndlun úrgangs. 

Lagt er til í frumvarpinu að komið verði á sérstakri söfnun, m.a. á pappír, málmum, plasti, gleri og lífrænum úrgangi, og gert er ráð fyrir að unnt verði að losa slíkan úrgang á aðgengilegan hátt. Þá er aukin áhersla lögð á fræðslu til almennings og að Umhverfisstofnun og sveitarfélög hafi aukið hlutverk í því sambandi.

Þá eru lagðar til breytingar á framleiðendaábyrgð vegna rafhlaðna og rafgeyma sem og breytingar á framleiðendaábyrgð vegna raf- og rafeindatækja. Með frumvarpinu er ætlunin að taka upp  framleiðendaábyrgð á drykkjarvöruumbúðir. 

Frumvarpinu er ætlað að innleiða Evróputilskipun 2008/98/EB um úrgang, í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum