Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Óskað eftir áliti almennings á stjórnarfyrirkomulagi Vatnajökulsþjóðgarðs

Þjónustumiðstöðin í Skaftafelli.
Þjónustumiðstöðin í Skaftafelli

Starfshópur, sem yfirfer núverandi stjórnarfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs, kallar eftir áliti og skoðunum almennings á stjórnun garðsins. Óskar hópurinn eftir því að áhugasamir svari þremur, tilteknum spurningum í því skyni að að fá fram sem víðtækust sjónarmið sem gagnast gætu við endurskoðunina.

Úttektin er í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Starfshópnum er ætlað að afla upplýsinga um reynsluna af stjórnfyrirkomulagi garðsins, skoða kosti þess og galla og vinna skýrslu um málið til ráðherra.

Eins og fram kemur í skipunarbréfi er starfshópnum ætlað að hafa samráð og leita eftir sjónarmiðum helstu aðila sem að stjórn garðsins koma ss. sveitarfélaga á starfssvæðinu, svæðisráða, útivistarsamtaka, umhverfisverndarsamtaka, stjórnar og framkvæmdastjóra auk annarra sjónarmiða sem starfshópurinn telur mikilvæg við stjórn þjóðgarðsins. Eru spurningarnar þrjár settar fram með þetta að markmiði.

Spurningarnar eru þessar:

  • Hvernig finnst þér hafa tekist með stjórnun Vatnajökulsþjóðgarðs?
  • Myndir þú vilja leggja til breytingar á núverandi fyrirkomulagi stjórnunar Vatnajökulsþjóðgarðs? Ef svo er, hverjar ættu þær að vera og af hverju?
  • Aðrar ábendingar til starfshópsins varðandi stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs?

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn gangi frá skýrslu til ráðherra eigi síðar en 1. apríl næstkomandi. Óskað er eftir því að svörin berist sem fyrst en í síðasta lagi 13. mars. Hægt er að senda þau með tölvupósti á netfangið [email protected] eða í almennum pósti til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík.  

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum