Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samningur um þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri undirritaður

Ríkisstjórnin fundaði á Selfossi í dag.
Ríkisstjórnin fundaði á Selfossi í dag.

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, undirritaði í dag samning við Framkvæmdasýslu ríkisins um byggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri. Samningurinn var undirritaður á Selfossi að afloknum ríkisstjórnarfundi sem þar var haldinn í morgun.

Þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri er fyrsta framkvæmdin af þessari stærðargráðu sem ráðuneytið stendur fyrir á kjörtímabilinu. Gert er ráð fyrir 290 milljóna króna framlagi til byggingarinnar næstu þrjú árin, eða samtals 870 milljónum króna.

Þekkingarsetrið mun hýsa gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs, sem er önnur gestastofan af þeim fjórum sem fyrirhugað er að byggja fyrir þjóðgarðinn. Gestastofurnar gegna mikilvægu hlutverki fyrir gesti þjóðgarðsins og veita ferðamönnum upplýsingar. Þá er gert ráð fyrir að í þekkingarsetrinu  verði einnig til húsa skrifstofa Skaftárhrepps og Erró-setur auk starfsemi á vegum Háskóla Íslands.  

Þá undirritaði ráðherra Nordic Built sáttmálann, sem tryggja á að bygging og rekstur þekkingasetursins verði á sjálfbærum grunni. Í því skyni verður byggingarferlið allt umhverfisvottað af viðurkenndum vottunaraðila.

Kirkjubæjarklaustur er á köldu svæði, þar sem ekki er hægt að nýta jarðhita til húshitunar. Þar sem Ísland hefur haft sérstöðu hvað varðar vistvæna og ódýra varmaorku hefur lítið verið hugað að úrlausnum fyrir slík svæði. Í því ljósi hefur verið ákveðið að þekkingarsetrið vinni að frumkvöðlaverkefni á sviði orkunotkunar og umhverfismála á köldum svæðum. Í verkefninu mun teymi sérfræðinga leita lausna til að lágmarka orkukostnað og umhverfisáhrif byggingarinnar með ólíkum aðferðum. Samstarfsaðilar ráðuneytisins og Vatnajökulsþjóðgarðs í þessu verkefni eru nú þegar Framkvæmdasýsla ríkisins, Arkís arkitektar, Orkusetur, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Varmalausnir ehf.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum