Hoppa yfir valmynd
14. janúar 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Rammaáætlun samþykkt

Vatnsorka.
Foss.

Alþingi hefur samþykkt þingsályktunartillögu Svandísar Svavarsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, um vernd og orkunýtingu landsvæða, sem lagði tillöguna fram í samráði við atvinnu- og nýsköpunarráðherra.

Í rammaáætlun, eins og hún er jafnan kölluð, eru landsvæði flokkuð í orkunýtingar-, verndar- og biðflokk á grundvelli laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, sem Alþingi samþykkti í maí 2011. Gert er ráð fyrir að Alþingi afgreiði slíkar tillögur eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti.

Nýsamþykkt rammaáætlun tekur til 67 landsvæða sem voru metin af verkefnisstjórn skipaðri sérfræðingum á sviði landgæða og orkunýtingar áður en gerð var tillaga að röðun svæðanna í ofangreinda flokka. Almenningi var gefinn kostur á að koma með athugasemdir og ábendingar við röðunina og bárust yfir 200 umsagnir um hana frá einstaklingum, fyrirtækjum, félagasamtökum og ýmsum hagsmunaaðilum. Í kjölfarið voru sex svæði færð úr virkjunarflokki yfir í biðflokk áður en ráðherra bar tillöguna undir Alþingi, sem eftir ítarlega umfjöllun samþykkti hana í dag. Samkvæmt áætluninni eru 20 svæði í verndarflokki, 31 svæði í biðflokki en í orkunýtingarflokki eru 16 landsvæði með samanlagða áætlaða orkuvinnslugetu upp á 8.484 GWst á ári.

Framundan er að afla nauðsynlegra upplýsinga um þá kosti sem eru í biðflokki og hefja friðlýsingarferli svæða í verndarflokki. Auk þess verður skipuð verkefnisstjórn fyrir næsta áfanga áætlunarinnar, í samræmi við lög um rammaáætlun.

Með breytingum á stjórnarráðinu sem tóku gildi 1. september síðastliðinn er forræði rammaáætlunar á höndum umhverfis- og auðlindaráðuneytis en umsýsla áætlunarinnar heyrir undir skrifstofu landgæða.

Þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum