Hoppa yfir valmynd
18. desember 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Eftirlit Umhverfisstofnunar í samræmi við kröfur

Merki Umhverfisstofnunar
Merki Umhverfisstofnunar

Uppbygging og framkvæmd eftirlits Umhverfisstofnunar með mengandi starfsemi er sambærileg því sem gerist í Evrópu og uppfyllir lágmarksviðmið. Á ýmsum sviðum er stofnunin leiðandi í álfunni en á öðrum eru tækifæri til að gera enn betur. Þetta eru niðurstöður úttektar IMPEL á eftirliti og starfsleyfisútgáfu Umhverfisstofnunar.

IMPEL, sem er samstarf stofnana í Evrópu um innleiðingu og eftirfylgni umhverfislöggjafar, gerði í ágúst síðastliðinn úttekt á starfsemi Umhverfisstofnunar. Sex manna teymi erlendra sérfræðinga í eftirliti með mengandi starfsemi auk starfsmanns IMPEL kom hingað til lands vegna þessa.

Lesa má um niðurstöður úttektarinnar í skýrslu hópsins. Meðal annars telja sérfræðingarnir að markmið ESB umhverfisréttar á starfssviði Umhverfisstofnunar séu uppfyllt og að fyrirkomulag eftirlits og eftirfylgni sé í meginatriðum í samræmi við tilmæli Evrópusambandsins.

Meðal þeirra atriða sem þykja til fyrirmyndar er upplýsingagjöf til almennings í gegnum vefsíðu og til fjölmiðla. Telja sérfræðingar IMPEL að Ísland sé leiðandi í þessum efnum og geti miðlað af sinni reynslu til annarra Evrópuríkja. Þá fær Umhverfisstofnun hrós fyrir gagnagrunna og upplýsingatækni sína en tekist hafi að búa til vinnutæki sem standast samanburð við það sem þekkist í Evrópu um leið og þau eru einföld og ódýr. Þá er bent á að sjálfstæð úrskurðarnefnd sem starfar hérlendis einfaldi mjög athugasemda- og kæruferli vegna ákvarðana. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála var sett á stofn í kjölfar fullgildingar Árósasamningsins og hóf starfsemi 1. janúar árið 2012.

Í skýrslunni er einnig bent á sóknarfæri í starfsemi Umhverfisstofnunar. M.a. þurfi stofnunin að endurheimta að fullu kostnað við útgáfu leyfa og eftirlit í samræmi við mengunarbótaregluna. Aðeins hluti kostnaðar er endurheimtur í dag og kemur það sem upp á vantar úr ríkissjóði. Þá væri æskilegt að starfsmenn sem sinna útgáfu starfsleyfa og eftirliti skipti um störf reglulega til að dreifa þekkingu og færn með það að markmiði að draga úr hættunni á tapaðri þekkingu. Þá þurfi að innleiða áhættumat fyrir starfsleyfishafa til þess að kröftum sé beint þangað sem þeirra er þörf, t.d. með því að fara oftar í eftirlit á suma staði en sjaldnar á aðra í samræmi við áhættumatið.

Yfirferð IMPEL er liður í viðamiklum breytingum sem Umhverfisstofnun hefur gert á starfsemi sinni frá árinu 2008 á eftirliti með mengandi starfsemi. Úttektin staðfestir að margvíslegum árangri hefur verið náð en áfram verður stefnt að enn markvissara eftirliti.

Skýrsla IMPEL

Frétt Umhverfisstofnunar

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum