Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Magnús Jóhannesson ráðinn framkvæmdastjóri Norðurskautsráðsins

Magnús Jóhannesson
Magnús Jóhannesson

Tilkynnt var í dag að Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri fastaskrifstofu Norðurskautsráðsins, sem stofna á í Tromsø í Noregi á næsta ári. Magnús var valinn til starfsins úr hópi 36 umsækjenda frá sjö af átta aðildarríkjum Norðurskautsráðsins. Gert er ráð fyrir að hann hefji störf í febrúar á næsta ári.

Magnús tók við starfi ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneytinu tveimur árum eftir stofnun þess, eða árið 1992, en hann var aðstoðarmaður umhverfisráðherra 1991-1992. Magnús var siglingamálastjóri frá árinu 1985 þar til hann kom til starfa í umhverfisráðuneytinu. Hann er með MSc Hons. gráðu í efnaverkfræði frá Manchester-háskóla í Englandi.

Magnús hefur tekið virkan þátt í störfum á alþjóðavettvangi á rúmlega 20 ára starfstíma sínum í umhverfisráðuneytinu. Á upphafsárum ráðuneytisins og í kjölfar Ríó-ráðstefnunnar um umhverfi og þróun árið 1992 var alþjóðastarf í umhverfismálum í mikilli deiglu, m.a. varðandi mengun hafsins. Magnús hefur átt mikinn þátt í að setja þau mál á oddinn í málflutningi Íslands og að koma þeim í fastara horf í alþjóðlegri samvinnu. Hann stýrði samningafundi í Reykjavík árið 1995, þar sem lögð var lokahönd á alþjóðlegt samkomulag um aðgerðir gegn mengun hafs frá landi, sem starfar nú undir merkjum Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og gegnir lykilhlutverki í hnattrænni viðleitni við að draga úr mengun sjávar. Magnús var varaformaður Nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun 1995-1996 og hefur verið fulltrúi Íslands í margvíslegu fjölþjóðlegu starfi m.a. á vegum Sameinuðu þjóðanna og Norrænu ráðherranefndarinnar. Síðustu tvö árin hefur Magnús gegnt formennsku í vinnunefnd Norðurskautsráðsins um vernd hafsins (PAME) og vinnunefnd ráðsins um vistkerfisnálgun og þekkir því vel til innviða ráðsins.

Gert er ráð fyrir að hin nýja fastaskrifstofa Norðurskautsráðsins í Tromsø verði formlega opnuð eftir ráðherrafund ráðsins næsta vor, en henni er ætlað að styrkja starf ráðsins og upplýsingagjöf um málefni norðurslóða. Vægi málefna norðurslóða hefur vaxið mjög á alþjóðavísu á undanförnum árum vegna örra umhverfisbreytinga á svæðinu og vaxandi umsvifa á sviði siglinga, auðlindanýtingar og rannsókna. Norðurskautsráðið gegnir lykilhlutverki í því sambandi, sem vettvangur umræðna og samningagerðar um málefni sem varða ríkin átta sem aðild eiga að ráðinu. Hingað til hafa formennskuríkin skipst á að hýsa skrifstofu ráðsins, en stofnun fastaskrifstofu er stórt skref í að efla starf og vægi ráðsins. Magnús Jóhannesson verður fyrsti framkvæmdastjóri fastaskrifstofu Norðurskautsráðsins og í því felst mikil viðurkenning á störfum hans á þeim vettvangi og að umhverfismálum.

Magnús er kvæntur Ragnheiði Hermannsdóttur kennara og eiga þau tvö uppkomin börn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum