Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Helmingur vefnaðarvöru endar í ruslinu árlega

Unnið við vefnað.
Unnið við vefnað.

Árlega er 145 þúsund tonnum af fatnaði og vefnaðarvöru hent í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð.  Þetta er um helmingur þeirrar vefnaðarvöru sem sett er á markað í þessum löndum árlega. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu um rannsókn sem unnin var á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.

Norðurlandabúar hafa verulega aukið notkun sína á fatnaði og vefnaðarvöru undanfarin ár. Í Svíþjóð hefur notkunin aukist um 40% síðastliðin 9 ár og í Danmörku jókst notkunin um 62% á árunum 2003-2008.

Í rannsókninni sem Norræna ráðherranefndin stóð fyrir er lífsferill vefnaðarvöru í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð kortlagður, allt frá því að fatnaðurinn kemur á markað og þar til hann endar í ruslinu. Í skýrslu nefndarinnar sem gerði rannsóknina eru einnig settar fram tillögur um hvernig koma má í veg fyrir slíkan úrgang.

Ýmislegt til ráða

Það hefur afar jákvæð áhrif á umhverfið að minnka vefnaðarvöruúrgang t.d. með endurnotkun. Þannig má draga úr mengun sem verður til við framleiðslu nýrra vefnaðarvara auk þess sem nýting hráefna og auðlinda eykst til muna þegar vörurnar eru notaðar aftur og aftur. Fatasöfnun ýmissa góðgerðasamtaka skiptir í því sambandi miklu máli. Einstaklingar geta sömuleiðis lagt sín lóð á vogarskálarnar með því að nýta sér ýmiskonar skiptisíður á netinu, flóamarkaði og verslanir sem bjóða upp á notaðan fatnað.

Í skýrslunni er bent á mikilvægi þess að beina sjónum frekar að slíkum fyrirtækjum, s.s. með umhverfismerkingum á borð við sænska merkið Bra Miljöval. Sem stendur fer þó lítið fyrir endurnotkun fatnaðar í Danmörku og Svíþjóð en endurnotkunin er um 13% í Finnlandi. Helsta hindrunin við endurnotkun er talin vera launakostnaður sem fellur til þegar verið er að flokka flíkurnar.

Hluti rannsóknarinnar var að benda á mögulegar aðgerðir sem hefðu það að markmiði að koma í veg fyrir vefnaðarvöruúrgang. Ein tillagan lýtur að því að taka upp framleiðendaábyrgð á vefnaðarvöru sem felur í sér að framleiðendur verði sjálfir látnir axla ábyrgð á því að safna saman notaðri vefnaðarvöru með það að markmiði að auka endurnotkunina.

Höfundar skýrslunnar mæla með því að slíkar aðgerðir yrðu útfærðar með þeim hætti að framleiðendur hefðu hvata til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum vörunnar þegar á framleiðslustiginu. Sömuleiðis leggja þeir til að útgjöld vegna umhverfisáhrifa fatnaðarins yrðu reiknuð inn í verð hans. Þá eru í skýrslunni tillögur um að leggja sérstaka skatta á vefnaðarvörur sem ekki eru visthæfar eða framleiðsluaðferðir sem eru skaðlegar fyrir umhverfið. 

Skýrslan Prevention of Textile Waste

Staðreyndir um fatnað og vefnaðarvöru

  • Umhverfisáhrif vefnaðarvöru eru mikil á öllum stigum, en þó einna mest við framleiðslu hennar og notkun.
  • Helstu umhverfisáhrif eru losun gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu og mikil notkun vatns, orku, efna og efnablandna.
  • Um 7.000 lítra af vatni þarf til að framleiða einn stuttermabol úr bómull.
  • Um 15 kíló gróðurhúsalofttegunda eru losuð út í andrúmsloftið við að framleiða um eitt kíló af vefnaði.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum