Hoppa yfir valmynd
31. október 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ríó+20 og norræni Svanurinn meðal umræðuefna á fundi norrænu umhverfisráðherranna

Norrænu umhverfisráðherrarnir í Helsinki í dag.
Norrænu umhverfisráðherrarnir í Helsinki í dag.

Sjálfbær þróun og eftirfylgni Ríó+20 ráðstefnunnar er meðal þess sem umhverfisráðherrar Norðurlandanna ræddu á fundi sínum í Helsinki í dag. Ráðherrarnir voru sammála um þörfina á því að styrkja Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og vinnu hennar við að ýta undir græna hagkerfið. Þeir ræddu einnig átak í að draga úr losun sóts og metans í framhaldi af samnorrænni yfirlýsingu ráðherranna frá í vor.

Fundur umhverfisráðherranna fór fram í tengslum við árlegan fund Norðurlandaráðs. Á fundinum var áhersla lögð á hversu mikilvægt græna hagkerfið er sem tæki til þróunar, bæði á vesturlöndum og í þróunarríkjum. Í því leikur Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna lykihlutverk en Norðurlöndin hafa mælt fyrir því á alþjóðavísu að starfsemi stofnunarinnar verði styrkt. Þennan stuðning ítrekuðu ráðherrarnir á fundi sínum í dag.

Þá ræddu þeir mikilvægi þess að fylgja eftir Svalbarðayfirlýsingunni sem ráðherrarnir sendu frá sér í mars. Í henni lögðu þeir línurnar um hvernig Norðurlöndin geta stuðlað úr því að dregið verði úr losun sóts og metans. Kom fram að þetta viðfangsefni verður sérstakt áherslumál í formennsku Svíþjóðar á næsta ári.

Á Ríó+20 ráðstefnunni sem haldin var fyrr á árinu kom fram að þörf væri á skýrslugjöf stórra fyrirtækja um sjálfbærnimál. Sömuleiðis þyrfti að endurskoða og bæta mælingar á þjóðarframleiðslu svo þær endurspegli betur ástand samfélaga og umhverfis en nú er. Ráðherrarnir voru sammála um að Norðurlöndin gætu og ættu að stuðla að slíkum breytingum og því væri þörf fyrir þverfaglega samvinnu í þessum efnum. Mun Norræna ráðherranefndin í formennskutíð Svíþjóðar vinna að því að skipuleggja fund háttsettra ráðamanna til að fara yfir þessi mál.

Ráðherrarnir samþykktu einnig aðgerðaáætlun í umhverfismálum á vettvangi Norðurlandanna fyrir árin 2013 – 2018. Helstu áhersluatriðin eru græn samfélagsþróun, líffræðilegur fjölbreytni, hættuleg efni í umhverfinu auk loftslagsbreytinga og loftgæða.  

Loks ákváðu ráðherrarnir að auka fjárveitingar á næsta ári til norræna umhverfismerkisins Svansins. Markmiðið er að styrkja vinnuna við að þróa umhverfisviðmið fyrir nýja vöruflokka með áherslu á loftslagsvæna framleiðslu.

Að fundinum loknum funduðu ráðherrarnir með umhverfisnefnd Norðurlandaráðs til að ræða framhald Ríó+20 ráðstefnunnar og framtíðarþróun norræna umhverfismerkisins Svansins.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum