Hoppa yfir valmynd
17. október 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samþætta þarf vernd lífríkis og vöxt í ferðamennsku

CoP11-to-cbd-logo
Merki fundarins.

Ísland hefur styrkt stefnu sína varðandi líffræðilega fjölbreytni og tekist hefur að draga úr hnignun vistkerfa landsins. Þetta er meðal þess sem kom fram í ræðu Svandísar Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra í morgun á 11. fundi aðildarríkja Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD) sem stendur yfir í Hyderabad á Indlandi. Þá sagði hún frá áformum íslenskra stjórnvalda varðandi endurheimt votlendis og að ná stjórn á útbreiðslu framandi ágengra tegunda í lífríkinu.

Ráðherra ræddi þær áskoranir sem Íslendingar standa frammi fyrir varðandi verndun lífríkisins á sama tíma og ferðamönnum hefur fjölgað jafnt og þétt með tilheyrandi álagi á vistkerfi landsins. Mikilvægt væri að samþætta vöxt í ferðaþjónustu vernd náttúru og lífríkis undir merkjum græns hagkerfis.

Ráðherra sagði að loftslagsbreytingar af mannavöldum væru ógn fyrir lífríkið, ekki síst í höfunum. Hafís á Norður-Íshafi hopaði hraðar en svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir og súrnun hafsins ógnaði lífríki þess.  

Loks gerði ráðherra þátt kvenna í því að vernda lífríki jarðar að umfjöllunarefni sínu og þá sérstaklega í tengslum við baráttuna gegn fátækt, sem er meðal meginviðfangsefna fundarins. Sagði hún stöðu kvenna grundvallaratriði í þessum efnum, enda væri það iðulega á þeirra ábyrgð að útvega eldivið, mat og aðrar lífsnauðsynjar fyrir fjölskyldur sínar. Þar af leiðandi yrðu þær einna fyrst fyrir neikvæðum áhrifum þess að vistkerfum fer hnignandi. Engu að síður væru konur í minnihluta við ákvarðanatöku í umhverfis- og efnahagsmálum. Sagði hún ekki aðeins rangt heldur einnig óskynsamlegt að konur skorti grundvallarréttindi – heimurinn þyrfti á þeirra aðstoð að halda við að berjast gegn loftslagsbreytingum og hnignun vistkerfa og fyrir því að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni á jörðinni.

Ræða umhverfis- og auðlindaráðherra

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum