Hoppa yfir valmynd
10. október 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ný áfangaskýrsla um kynjaáhrif loftslagsmála

Vistspor kvenna er minna en karla.
Vistspor kvenna er minna en karla.

Konur nota vistvænni samgöngumáta en karlar og hafa almennt vistvænni lífsstíl en þeir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri áfangaskýrslu um kynjaáhrif loftslagsmála.

Skýrslan er verkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytis í kynjaðri fjárlagagerð, þar sem farið er yfir  aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem samþykkt var í október 2010. Í áfangaskýrslunni eru kynjaáhrif aðgerðaáætlunarinnar greind og kemur fram í niðurstöðum að þær aðgerðir sem boðaðar eru í áætluninni skapa einkum störf á karllægum sviðum svo sem í landbúnaði og við ýmsa véla– og tæknivinnu. Einnig kom í ljós að svokölluð vistspor (e. ecological footprint) kvenna eru minni en karla sem hlýst af því að lífsstíll kvenna er mun umhverfisvænni en karla.

Er á það bent að aðgerðir íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem á endanum gagnast öllum, bæði konum og körlum. Flest jafnréttismarkmið áætlunarinnar tengjast fyrirliggjandi mun á stöðu kynjanna. Undirrót þess kynjamunar er ójöfn staða kvenna og karla á vinnumarkaði, kynbundinn launamunur og ójöfn byrði ólaunaðra umönnunar- og heimilsstarfa. Segir í skýrslunni að undirstaða þess að bæði kynin geti lagt sitt af mörkum í umhverfis- og loftslagsmálum er að jafna þessa ójöfnu stöðu.

Ef konur og karlar eigi að leggja jafnt af mörkum til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar með því að breyta neytendamynstri sínu yfir í vistvænni lífsstíl, verði því sérstaklega að beina sjónum að körlum og því neyslumynstri og lífsstíl sem þeir fylgja.

Loftslagsmál og kynjaáhrif þeirra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum