Hoppa yfir valmynd
3. október 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Spurt um gerð stafræns korts af hafsbotninum

Horft á hafið.
Horft á hafið.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett af stað samráðsferli um hvernig best verður staðið að gerð stafræns korts af hafsbotninum umhverfis Evrópu. Stefnt er að því að kortið liggi fyrir árið 2020 en markmiðið með verkefninu er að safna öllum fyrirliggjandi upplýsingum um hafið og hafsbotninn saman í einn gagnagrunn sem yrði aðgengilegur öllum.

Framkvæmdastjórnin bendir á að hafið umhverfis Evrópu býður upp á fjölda tækifæra til hagvaxtar og atvinnusköpunar í tengslum við samkvæmt orku- og umhverfisstefnu Evrópusambandsins til ársins 2020. Mikilvægt sé að öðlast betri þekkingu á því sem gerist í hafinu og á hafsbotni svo hægt sé að nýta þessi tækifæri til fulls.  

Gagnagrunnurinn á að verða í bestu mögulegu upplausn þar sem mismunandi landslag, jarðfræði, búsvæði og vistkerfi hafsins yrðu kortlögð. Grunnurinn á að gefa yfirlit um rannsóknir og nýjustu upplýsingar er varða eðlisfræði, efnafræði og líffræðilegt ástand hafsins, haffræðilegar spár sem og tengd gögn um hvaða áhrif athafnir mannsins hafa hverju sinni á hafið.

Þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi um þessi atriði eru í dag dreifðar um hundruð stofnana víðs vegar um Evrópu. Því getur verið erfitt að finna sérhæfðar upplýsingar sem leitað er að og tímafrek vinna fer oft á tíðum í að samræma gögn úr ýmsum áttum.

Með samráðsferlinu er velt upp spurningum um hvernig hægt sé að safna þeim upplýsingum sem þegar eru til staðar í einn gagnagrunn og hvernig megi þróa nýjar og hagkvæmari rannsóknaraðferðir en notaðar eru í dag. Sömuleiðis er spurt hvernig hægt sé að tryggja samstarf við einkageirann.

Íslendingar hafa innleitt vatnatilskipun ESB að verulegu leyti í gegnum EES-samninginn og því geta þessi mál varðað hagsmuni Íslands með beinum hætti.  

Samráðsferlið stendur til 15. desember 2012.  

Consultation on Marine Knowledge 2020: from seabed mapping to ocean forecasting

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum