Hoppa yfir valmynd
17. september 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Degi íslenskrar náttúru fagnað í blíðskaparveðri

Ljótikór á Degi íslenskrar náttúru.
Ljótikór á Degi íslenskrar náttúru.

Dagur íslenskrar náttúru var í gær, 16. september, haldinn hátíðlegur víða um land en þetta er í annað sinn sem deginum er fagnað.

Dagurinn hófst á Veðurstofu Íslands þar sem Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra las veðurfréttir í beinni útsendingu á Rás 1. Rættist þar með gamall draumur um að fá tækifæri til að spreyta sig á hlutverki veðurfréttamannsins. Vakti uppátækið að vonum nokkra athygli og var ekki að heyra annað en að ráðherra kæmist ágætlega frá orðasamböndum á borð við „úrkomu í grennd“ og „þurrt að mestu“.

Frá Veðurstofunni lá leiðin í útvarpshúsið við Efstaleiti þar sem umhverfis- og auðlindaráðherra spjallaði við Sirrý á Rás 2 og ræddi við hlustendur í beinni útsendingu. Bar þar ýmislegt er varðar náttúru Íslands á góma, allt frá fögru fjallaútsýni að íslensku tófunni.

Ráðherra fékk einnig leiðsögn í birkifræsöfnun og –sáningu á Keldnaholti en Landgræðsla ríkisins, Skógrækt ríkisins og Landbúnaðarháskóli Íslands stóðu saman í gær að kennslu og fræðslu fyrir almenning um söfnun og sáningu birkifræs. Vegna góðs fræárs hafa Hekluskógar biðlað til einstaklinga, skóla og félagasamtaka um að safna birkifræi af trjám á höfuðborgarsvæðinu og víðar um sunnan og vestanvert landið og mun Endurvinnslan hf taka við fræinu í móttökustöðvum á höfuðborgarsvæðinu og á Selfossi.

Hátíðardagskrá umhverfis- og auðlindaráðherra fór svo fram úti undir berum himni við Árbæjarsafn í blíðskaparveðri en samkoman hófst kl. 14:00.  Fór ráðherra þar með ávarp og Páll Ásgeir Ásgeirsson flutti hugleiðingar um gildi náttúrunnar og ágang manna á hana. Að því loknu afhenti ráðherra Hjörleifi Guttormssyni Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti fyrir mikilsvert framlag hans til verndar náttúru Íslands og Rúnari Pálmasyni Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir vandaða umfjöllun hans um akstur utan vega.


Víða fagnað

Viðburðir í tilefni dagsins voru þó mun fleiri en um allt land fagnaði fólk íslenskri náttúru, með gönguferðum, ratleikjum, hjólatúrum, fjallgöngum, opnum söfnum og sýningum, fyrirlestrum, opnun nýrra heimasíðna, ráðgjöf og fræðslu um íslenska náttúru.  Þakkar umhverfis- og auðlindaráðuneytið öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við hátíðarhöld dagsins og vonast til að dagurinn hafi verið landsmönnum öllum gleðileg og góð áminning um þann fjársjóð sem er að finna í íslenskri náttúru.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum