Hoppa yfir valmynd
10. september 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Þrjár tilnefningar til fjölmiðlaverðlauna

Raxi hlaut fjölmiðlaverðlaun umhverfisráðuneytisins.
Raxi hlaut fjölmiðlaverðlaun umhverfisráðuneytisins 2011.

Dómnefnd hefur tilnefnt þrjá til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sem veitt verða á Degi íslenskrar náttúru, sunnudaginn 16. september næstkomandi.

Tilnefnd til verðlaunanna eru:

  • Tímaritið Fuglar fyrir umfjöllun um fugla í náttúru Íslands. Fuglar er fróðlegt tímarit sem leitast við að beina sjónum að því helsta sem tengist staðfuglum, farfuglum og sjaldgæfum flækingum, fræða almenning um helstu búsvæði fugla og leiðbeina þeim sem hafa áhuga á fuglaskoðun. Framsetning greina og ljósmynda stuðlar að því að tímaritið höfðar til þeirra sem hafa brennandi áhuga á verndun og viðgangi fugla og líka til þeirra sem vita lítið um fugla.
  • Herdís Þorvaldsdóttir fyrir heimildamynd sína „Fjallkonan hrópar á vægð“. Myndin fjallar um landeyðingu og afleiðingar ofbeitar sauðfjár hér á landi. Sjónum er beint að ógn sem steðjar að íslenskri náttúru og hvatt er til þess að breyting verði gerð á beitarstýringu í landinu. Rætt er við sérfræðinga á sviði beitar, náttúruverndar, landgræðslu og skógræktar sem lýsa skoðunum sínum og bændur sem sjá málið frá öðru sjónarhorni.
  • Rúnar Pálmason, blaðamaður á Morgunblaðinu, fyrir ítarlega umfjöllun um akstur utan vega. Hann hefur ítrekað vakið athygli á skemmdum sem unnar hafa verið með utanvegaakstri víða um landið. Hann hefur fylgt umfjöllun sinni eftir, krafið opinbera aðila svara og hvatt til þess að gripið verði til aðgerða til að stemma stigu við þessu vandamáli. Myndefnið sem sett er fram með skrifum Rúnars sýnir með skýrum hætti hvernig akstur vélknúinna ökutækja getur spillt náttúru landsins.

Verðlaunagripurinn er hannaður af Finni Arnari Arnarsyni.

Í dómnefnd vegna verðlaunanna sitja María Ellingsen formaður, Jónatan Garðarsson og Valgerður A. Jóhannsdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum