Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tillögur nefndar um efni nýrra skógræktarlaga

skogur
Birkiskógur

Umhverfisráðuneytið óskar eftir umsögnum um greinargerð nefndar um endurskoðun laga um skógrækt, en nefndin skilaði umhverfisráðherra tillögum sínum í dag. Greinargerðin, ásamt umsögnum sem berast um hana, verða grunnur fyrir gerð frumvarps til nýrra skógræktarlaga.

Í greinargerðinni er m.a. fjallað stuttlega um stöðu skóga og skógræktar á Íslandi, rætt er um þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur tekið sér á hendur í þessum málaflokki og settar fram tillögur um efnisþætti nýrra skógræktarlaga. Þær tillögur fjalla m.a.  um stjórn skógræktarmála og áætlanagerð. Þá er fjallað um ýmsa þætti er varða umsjón með skógarauðlindum landsins,  gerðar eru tillögur um vernd og friðun skóga, svo og hvernig standa skuli að ræktun nýrra skóga og sjálfbærri nýtingu þeirra.  Loks eru gerðar tillögur að breytingum á öðrum lögum og reglum sem snerta þennan málaflokk.    

Í vinnu nefndarinnar var sérstök áhersla lögð á samráð og samstarf við þá aðila sem málið varðar og var m.a. óskað eftir ábendingum um efni og áherslur laga um skógrækt, áður en eiginleg vinna nefndarinnar við greinargerðina hófst.  Þá var kallað eftir umsögnum hagsmunaaðila, margir komu á fund nefndarinnar og jafnframt stóð nefndin fyrir tveimur opnum málstofum um efnið.

Nefndin fékk fram fjöldamörg sjónarmið og ábendingar sem hún hefur unnið skipulega með við sína tillögugerð. Er greinargerðin sem hér er lögð fram niðurstaða þessarar vinnu og samráðs nefndarinnar.

Sérstaka vefútgáfu greinargerðarinnar má nálgast á vef umhverfisráðuneytisins þar sem einnig er að finna PDF-útgáfu til útprentunar.

Óskar umhverfisráðuneytið hér með eftir athugasemdum við tillögur nefndarinnar.

Umsögnum um tillögur nefndarinnar skal skilað í síðasta lagi 27. ágúst næstkomandi á netfangið [email protected] eða í bréfapósti, merkt Umhverfisráðuneytið, Skuggasund 1, 150 Reykjavík.

Tillögur að nýjum lögum um skógrækt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum