Hoppa yfir valmynd
27. júní 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Að lokinni Ríó+20 ráðstefnunni

Ráðstefnuslit.
Ráðstefnuslit.

Ríó+20, ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, fór fram í Ríó de Janeiró dagana 20. til 22. júní 2012. Í aðdraganda ráðstefnunnar setti Ísland fjögur atriði á oddinn: Málefni hafsins, endurnýjanlega orku, jafnréttismál og sjálfbæra landnýtingu.

Á ráðstefnunni náðist allgóður árangur hvað varðar málefni hafsins. Þetta endurspeglast m.a. í  lokasamþykkt ráðstefnunnar þar sem umfjöllun um hafið er ítarlegri og umfangsmeiri en búist var við fyrirfram. Tekið er tillit til helstu áherslumála Íslands varðandi málefni hafsins, s.s. um verndun hafsins, sjálfbæra nýtingu lífríkis sjávar og mengun hafs og stranda.

Sá hluti samþykktarinnar er lýtur að sjálfbærri orkunýtingu var styrktur undir lok ráðstefnunnar og m.a. bætt við tilvísunum til mikilvægis sjálfbærrar orku. Orðalag mætti þó að mati Íslands vera sterkara og skortur er á skuldbindingum til að fylgja málinu eftir. Í því sambandi er rétt að minna á að enn hefur um fimmtungur jarðarbúa ekki aðgang að rafmagni.

Þá var minnt á sérstöðu Íslands varðandi sjálfbæra landnýtingu. Oft er litið á landeyðingu fyrst og fremst sem vandamál í tengslum við eyðimerkurmyndun í þróunarríkjum. Landeyðing hefur lengi verið mikið vandamál á Íslandi, en þar býr jafnframt mikil þekking á sviði landgræðslu, sem mikilvægt er að miðla áfram.

Af öðrum málum í samþykktinni má nefna áherslu á að styrkja stofnanir Sameinuðu þjóðanna í því skyni að framfylgja betur markmiðum sjálfbærrar þróunar og er ætlunin að gera það m.a.  með skipulagsbreytingum. Þá er lögð áhersla á að þróuð verði svokölluð sjálfbærnimarkmið (Sustainable Development Goals), sem taki við þegar þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sleppir. Sjálfbærnimarkmiðunum er ætlað að vera mælistika á það hvernig gengur að hrinda markmiðum sjálfbærrar þróunar í framkvæmd.

Á Ríó+20 fóru fram miklar umræður um græna hagkerfið og leiddu þær m.a. í ljós ólíka sýn ríkja á hvað græna hagkerfið felur í sér og hvort rétt sé að stefna að því. Á hinn bóginn ber að fagna því að í samþykktinni er hagstofu Sameinuðu þjóðanna falið að hefja vinnu við að þróa annars konar mælikvarða á árangur þjóða en verga landsframleiðslu. Ísland lagði ríka áherslu á mikilvægi slíkra mælikvarða í málflutningi sínum.

Jafnréttismál of veikburða

Í almennum umræðum á ráðstefnunni fór Ísland framarlega í hópi nokkurs fjölda ríkja sem lýstu vonbrigðum með að jafnréttissjónarmið hafi ekki verið betur fléttuð inn í samningstextann. Sérstaklega var þar bent á að fjarlægður hafi verið texti sem staðfestir þann mikilvæga rétt kvenna að stýra eigin barneignum, sem ítrekað hefur verið lýst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Þótt jafnréttissjónarmiðum sé að ýmsu leyti gert hátt undir höfði í lokasamþykkt ráðstefnunnar gagnrýndi Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra í ávarpi sínu á ráðstefnunni að ekki skuli kveðið enn fastar að orði í þeim málaflokki. Benti hún m.a. á að jafnrétti og aukin völd kvenna eru lykillinn að þeim  breytingum sem nauðsynlegar eru til að ná markmiðum sjálfbærrar þróunar því eins og kunnugt er verða konur og stúlkur mun frekar en karlar fyrir áhrifum af hnignandi lífsskilyrðum sem fylgja ósjálfbærum lifnaðarháttum mannkyns.

Við lokaafgreiðslu samþykkta ráðstefnunnar flutti umhverfisráðherra auk þess sérstaka yfirlýsingu þar sem þessari gagnrýni var formlega komið á framfæri. Auk Íslands stóð Noregur að yfirlýsingunni, sem var svohljóðandi:

Mister President,

Please allow me to read out the following statement on behalf of Iceland and Norway.

After careful consideration, in the spirit of solidarity, we have decided to join consensus on the outcome document despite the absence of language on our collective commitment to women's reproductive rights.

While we strongly regret the lack of reference to these rights in the outcome document we reiterate that they have already been included in other documents such as both the Cairo Programme of Action and the Beijing Declaration and Platform for Action. These rights are non-negotiable.

Thank you, Mister President.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum