Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Drög að frumvarpi til laga um loftslagsmál til umsagnar

co2
Losun gróðurhúsalofttegunda.

Umhverfisráðuneytið óskar eftir athugasemdum við drög að frumvarpi til laga um loftslagsmál. Með frumvarpinu er lagt til að í fyrsta skipti verði hér á landi sett heildarlöggjöf um loftslagsmál. Með því er ætlunin að sameina undir einum hatti sem flestar reglur sem hafa að markmiði að stemma stigu við loftslagsvandanum eða aðlaga okkur að afleiðingum loftslagsbreytinga.

Meginmarkmið frumvarpsins eru að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti með hagkvæmum og skilvirkum hætti, stuðla að aðlögun að afleiðingum loftslagsbreytinga og skapa skilyrði fyrir stjórnvöld til þess að standa við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.

Alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins í loftslagsmálum koma einkum fram í loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1992 og Kýótó-bókuninni sem tók gildi árið 2005. Vegna aðildar sinnar að EES-samningnum er Ísland auk þess skuldbundið af reglum Evrópusambandsins um viðskiptakerfi með losunarheimildir (EU Emissions Trading System, ETS).

Viðskiptakerfið er meginstjórntæki Evrópusambandsins á sviði loftslagsmála og er ætlað að mynda hagræna hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland varð formlega aðili að kerfinu árið 2007 en tók í fyrsta skipti virkan þátt í því um síðustu áramót þegar flugstarfsemi var felld undir gildissvið þess. Reglur um skyldur flugrekenda í viðskiptakerfinu voru innleiddar síðastliðið sumar með lögum nr. 64/2011, sem breyttu  lögum nr. 65/2007 um losun gróðurhúsalofttegunda. Frá 1. janúar 2013 mun stór hluti staðbundinnar iðnaðarstarfsemi einnig heyra undir kerfið, svo sem álframleiðsla og járnblendiframleiðsla. Með þessu frumvarpi er ætlunin að innleiða reglur Evrópusambandsins um slíka starfsemi, en búist er við að þær verði teknar upp í EES-samninginn á næstu mánuðum.

Í frumvarpinu er lagt til að umhverfisráðherra láti vinna aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem endurskoðuð verði á þriggja ára fresti. Lagt er til að skipuð verði nefnd, skipuð fulltrúum hlutaðeigandi ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem hafi umsjón með því að áætluninni sé hrint í framkvæmd, móti tillögur um ný verkefni og veiti umhverfisráðherra upplýsingar og ráðgjöf

Loks er lagt til að stofnaður verði nýr sjóður, svokallaður Loftslagssjóður, sem heyri undir umhverfisráðherra og hafi það hlutverk að styrkja annars vegar þróunarstarf og rannsóknir á sviði loftslagsvænnar tæknitækniþróunar og nýsköpunar á Íslandi og hins vegar verkefni er lúta að kynningu og fræðslu á áhrifum loftslagsbreytinga og hlutverki almennings, stofnana og fyrirtækja í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Með stofnun sjóðsins er ætlunin að tryggja að tekjum íslenska ríkisins af uppboði losunarheimilda í viðskiptakerfi ESB verði að stærstum hluta varið til loftslagsvænna verkefna.

Frumvarpið hefur verið sent helstu hagsmunaaðilum til umsagnar. Öllum er auk þess frjálst að senda umhverfisráðuneytinu umsögn eða athugasemdir við drögin með tölvupósti á [email protected] til og með 20. febrúar næstkomandi.

Drög að frumvarpi til laga um loftslagsmál

Greinargerð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum