Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samráð um losun gróðurhúsalofttegunda frá skipum

Skip við bryggju.
Skip við bryggju.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett af stað samráðsferli á netinu um hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda frá skipum. Meðal annars er horft til viðskiptakerfis Evrópusambandsins með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, en flugumferð er meðal þeirrar starfsemi sem felld hefur verið undir það.

Evrópusambandið hefur skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um a.m.k. 20% fyrir árið 2020. Þetta gildir um allt atvinnulífið og þarf Framkvæmdastjórn ESB af þeim sökum m.a. að setja fram tillögur að því með hvaða hætti hægt er að draga úr losun frá siglingum.

Þrátt fyrir tilmæli Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna til Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um að dregið verður úr losun gróðurhúsalofttegunda frá skipum hefur lítið miðað í því að þróa lausnir á sviði tækni og reksturs sem draga úr losun frá skipum. Hið sama gildir um markaðslega hvata með sama markmið. Framkvæmdastjórnin hyggst halda áfram ýta undir slíka vinnu en um leið leita annarra leiða til að svara ákalli um aðgerðir í þessum efnum.

Upprunaleg fyrirætlan Framkvæmdastjórnarinnar var að fella siglingar undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda svipað og gert var með flugið um síðastliðin áramót. Sterk viðbrögð  flugrekstraraðila hafa hins vegar orðið til þess að Framkvæmdastjórnin  vill leita annarra leiða til að ná markmiðum um minni losun frá  skipum. Samráðsferlið sem nú stendur yfir endurspeglar meðal annars þetta.

Losun frá skipaumferð er um 3% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og spá sérfræðingar því að hún muni meira en tvöfaldast fyrir árið 2050 ef ekkert verður að gert. Aðgerðir til að draga úr losun myndu minnka  eldsneytisnotkun og þar með lækka orkureikninga skiparekenda til muna og um leið  flutningskostnað. Þá myndu slíkar aðgerðir örva eftirspurn eftir orkusparneytnum tækjum og þjónustu á sjó.

Verði breytingar gerðar á reglum Evrópusambandsins um losun gróðurhúsalofttegunda frá skipum  mun það hafa áhrif á íslenskar reglur vegna EES samningsins.

Samráðsferlið stendur til 12. apríl.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum