Hoppa yfir valmynd
23. maí 2001 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Undirritun alþjóðlegs samnings um lífræn þrávirk efni í Stokkhólmi.

Í dag undirritaði Siv Friðlefsdóttir umhverfisráðherra ásamt fulltrúum 90 annarra ríkja heims nýjan samning um lífræn þrávirk efni. Samningurinn tekur til 12 manngerðra efnasambanda sem sýnt er að valda mjög alvarlegum áhrifum í náttúrunni ekki síst á heilsufar fólks.

Undirritunin í Stokkhólmi er söguleg frá íslensku sjónarmiði þar sem íslensk stjórnvöld höfðu frumkvæði að því að gera tillögu um samning af þessu tagi á Ríó-ráðstefnunni 1992 og unnu áfram að því að skapa alþjóðlega samstöðu um málið. Verulegur skriður komst á alþjóðlegum fundi sem ríkisstjórn Íslands bauð til í Reykjavík í mars 1995.

Þrávirkum lífrænum efnum hefur verið skipt í þrjá hópa: plágueyða (DDT, klórdan, HCH (lindan), TBT, toxafen, mírex, díeldrín), efni notuð í iðnaði (PCB, HCB) og aukaafurðir í iðnaðarferlum (HCB, díoxín). Nánari upplýsingar um efnin og mælingar á þeim hér við land má fá á heimasíðu Hollustuverndar (www.hollver.is).

Ekki var farið að nota þrávirk lífræn efni að nokkru ráði fyrr en um eða eftir seinni heimsstyrjöldina. Þau hafa tilhneigingu til að flytjast um langan veg frá uppruna sínum til að safnast upp á kaldari svæðum. Þrávirku lífrænu efnin geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir dýraríkið í heild sinni, ekki hvað síst fyrir dýraríkið á kaldari svæðum því að efnin safnast fyrir í fitulagi dýranna. Áhrifin magnast þegar ofar dregur í fæðukeðjunni svo sem hjá sjávarspendýrum. Einna alvarlegast er talið að efnin geta líkt eftir hormónum og valdið með því verulegu raski í hormónabúskap lífveranna. Þá geta sum þessara efna valdið krabbameini eða örvað vöxt þess. Í þessu sambandi er einnig rétt að hafa í huga að vaxandi mengun af völdum þessara efna gæti haft mjög neikvæð áhrif á sölu íslenskra sjávarafurða. Hrein ímynd okkar sem framleiðendur matvæla hefur lykilþýðingu fyrir íslenskan efnahag.

Á Íslandi er hlutfall þrávirkra lífrænna efna sem mæld hafa verið vel undir hættumörkum í lífríkinu. Almennt er hlutfallið heldur hærra en á meginlandi Evrópu, en lægra en á Grænlandi og meðal Inúíta í Kanada.

Helstu framleiðendur og notendur margra þeirra efna sem samningurinn tekur til eru í þróunarríkjunum. Því er mikilvægt að þróunarríkin gerist sem fyrst aðilar að samningnum. Ákvæði um stuðning iðnríkja við þróunarríkin eru í samningnum og ákveðið hefur verið að sá stuðningur verði að verulegu leyti fjármagnaður af Alþjóðaumhverfissjóðnum (Global Environment Facility).

    Fréttatilkynning nr. 6/2001
    Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum