Hoppa yfir valmynd
6. júní 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Drög að skýrslu um stöðu mannréttinda á Íslandi

Útikennsla.
Útikennsla.

Umhverfisráðuneytið hefur að undanförnu átt fulltrúa í vinnuhópi sem leiddur er af innanríkisráðuneyti og hefur það hlutverk að vinna skýrslu um stöðu mannréttindamála á Íslandi. Skýrslan verður svo hluti af úttekt Sameinuðu þjóðanna á ástandi mannréttindamála í aðildarríkjunum. Drög að skýrslunni liggja nú fyrir og eru aðgengileg á vef innanríkisráðuneytisins. Allir eru hvattir til að kynna sér drögin og gera við þau athugasemdir.

Umhverfismál og mannréttindi eru nátengd enda eru tiltekin umhverfisgæði forsenda ýmissa grundvallarmannréttinda. Nægir þar að nefna hreint vatn sem er forsenda réttarins til lífs og heilnæmt umhverfi sem er nátengt réttinum til heilsu og réttinum til einkalífs og fjölskyldu.

Mikilvægur liður í því að tryggja heilnæmt umhverfi er að tryggja rétt almennings til þátttöku í ákvarðanatöku um umhverfismál. Til þess að sá réttur sé virkur þarf einnig að tryggja rétt almennings og frjálsra félagasamtaka til aðgangs að upplýsingum er varða umhverfið og rétt til þess að fá ákvörðun endurskoðaða.

Réttur til aðgangs að upplýsingum og réttur til þátttöku í ákvörðunum er varða umhverfið hefur verið tryggður í ýmsum lögum hér á landi um nokkurt skeið. Ber þar hæst lög um upplýsingarétt um umhverfismál nr 23/2006 . Að auki eru þátttökuréttindi almennings tryggð í ýmsum lögum, s.s. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr 106/2000 , skipulagslögum nr 123/2010 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr 7/1998. Í þessu sambandi má einnig nefna lög um erfðabreyttar lífverur nr 18/1996 og lög um Vatnajökulsþjóðgarð nr 60/2007.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp umhverfisráðherra er tryggir einnig réttinn til þess að fá ákvörðun um umhverfismál endurskoðaða af hlutlausum aðila (aðgangur að réttlátri málsmeðferð). Samhliða  því hefur utanríkisráðherra lagt fram tillögu til fullgildingar Árósasáttmálanum.

Um þetta er lítillega fjallað í skýrsludrögunum auk þess sem nefnt er að samkvæmt nýjum skipulagslögum og mannvirkjalögum er nú unnið að því að bæta reglur um aðgengi fatlaðra í samræmi við alþjóðasamning um réttindi fatlaðra.

Drög að skýrslu um stöðu mannréttindamála á Íslandi. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum