Hoppa yfir valmynd
30. maí 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Takmörkun eða bann við burðarpokum úr plasti til skoðunar

Plastpokar.
Plastpokar.

 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett af stað formlegt ráðgjafarferli á netinu þar sem óskað er eftir tillögum almennings um hvernig best sé að draga úr notkun burðarpoka úr plasti í Evrópu. Meðal þess sem er til skoðunar er hvort banna eigi alfarið notkun plastpokanna. Sjónarmið almennings gæti haft áhrif á tilskipanir Evrópusambandsins og þar með löggjöf hér á landi vegna EES samningins.

Nokkur umræða hefur verið um afleiðingar plastpokanotkunar á umhverfið, m.a. á fundi umhverfisráðherra Evrópsambandsríkjanna í mars síðastliðnum. Þar kom fram greinileg þörf á frumkvæði Evrópusambandsins í málinu. 

Alls voru 3,4 milljón tonn burðarpoka úr plasti framleidd í Evrópu árið 2008, sem samsvarar þyngd tveggja milljóna fólksbíla. Er áætlað að hver einstaklingur innan Evrópusambandsins noti um 500 plastpoka að meðaltali á ári. Þetta er stórt vandamál þar sem plastpokar, sem ekki brotna niður í náttúrunni, enda oft í eins konar plasthrúgu á hafi úti. Segir í tilkynningu frá framkvæmdastjórninni að eina lausnin á vandamálinu sé að draga verulega úr plastpokanotkun.

Auk þess að vera leiðbeinandi fyrir endurskoðun reglna er með ráðgjöfinni ætlað að fá yfirlit yfir skoðanir fólks á því hvort núverandi kröfur um umbúðir sem náttúran getur brotið niður séu nægjanlegar, en þær er að finna í Evróputilskipun 94/62/EC. Tilskipunin gerir ekki skýran greinarmun á umbúðum sem brotna niður í náttúrunni eða eingöngu í niðurbrotsferlum í iðnaði. Er bent á að það geti verið misvísandi að auglýsa á umbúðum að þær séu niðurbrjótanlegar þegar þær brotna eingöngu niður í flóknum iðnaðarferlum auk þess sem það getur stuðlað að útbreiðslu rusls.

Tekið er á móti tillögum á vefnum til 9. ágúst 2011, en könnunina má finna hér.

Nánar um könnunina.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum