Hoppa yfir valmynd
20. maí 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra við útskrift Stóriðjuskólans

Útskriftarhópur stóriðjuskólans.
Útskriftarhópur stóriðjuskólans.

 Góður árangur álversins í Straumsvík í öryggismálum og hvernig tekist hefur að halda mengun í lágmarki var meðal þess sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra gerði að umtalsefni sínu í ávarpi sínu við útskrift nemenda úr Stóriðjuskóla álversins í Straumsvík á mánudag.

Ellefu nemendur útskrifuðust úr Stóriðjuskólanum að þessu sinni og hafa þá alls 206 nemendur lokið grunnnámi með titilinn „stóriðjugreinir“ frá stofnun skólans árið 1998.

Sagði ráðherra álverið í Straumsvík gott dæmi um hverju er hægt væri að fá áorkað með framsækinni stefnu og góðu starfsfólki. Góður árangur hefði náðst í öryggismálum og tekist hefði að halda mengun í lágmarki, sem væri jákvætt fyrir umhverfið og heilsu fólks. Losun flúorkolefna á tonn af áli hefði lengi verið einhver sú lægsta sem þekkist í heiminum og jafnvel sú allra lægsta.

Þótt stóriðja og virkjanir væru umdeild gætu allir verið sammála um að „þau fyrirtæki sem eru starfandi á sviði stóriðju eigi að standa sig vel í að lágmarka mengun og stunda sinn rekstur á eins umhverfisvænan hátt og kostur er.”

Sagði ráðherra stofnun Stóriðjuskólans sýna metnað í þá átt fyrir hönd fyrirtækisins og starfsmanna þess enda hefði hann áunnið sér virðingu og viðurkenningu í gegn um tíðina.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum