Hoppa yfir valmynd
20. maí 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Stórstígar framfarir í meðhöndlun úrgangs

Afmælisráðstefna Sorpu.
Afmælisráðstefna Sorpu.

 

Sorpa bs. fagnar 20 ára afmæli sínu

Tilkoma Sorpeyðingar höfuðborgarsvæðisins átti ríkan þátt í að stuðla að breyttri meðhöndlun úrgangs og auka endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs hér á landi. Þó enn sé verk að vinna ber að fagna þeim árangri sem náðst hefur í úrgangsmálum sl. tvo áratugi. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra í ávarpi á afmælisráðstefnu Sorpu bs. fyrr í dag.

„Frá því að umhverfisráðuneytið var stofnað árið 1990 og á starfstíma Sorpu bs. hafa átt sér stað stórstíga framfarir í meðhöndlun úrgangs hér á landi.  Fyrir árið 1990 voru ekki gerðar sérstakar kröfur til staðsetningar, reksturs eða frágangs urðunarstaða.  Markvissar upplýsingar um magn og gerð úrgangs verða ekki til fyrr en Sorpa tekur til starfa og í framhald af því hófu önnur sveitarfélög að vigta og skrá úrgang.  Umhverfisráðuneytið hóf strax í upphafi að vinna að úrgangsmálum og setja reglur á því sviði og var starfsleyfi Sorpu fyrir móttökustöð í Gufunesi og urðunarstað í Álfsnesi fyrsta „nútíma“ starfsleyfið á þessu sviði,“ sagði Svandís. Sem dæmi um aukningu í endurnýtingu úrgangs hafi hlutfall hans aukist úr 12% árið 1995 í 60% árið 2008.   

Fengu staðfestingu á innleiðingu gæðastjórnunarkerfis

Á ráðstefnunni afhenti Svandís Sorpu viðurkenningu og staðfestingu á því að fyrirtækið hefur nú innleitt gæðastjórnunarstuðulinn ISO 9001. Hún sagði í ávarpi sínu ánægjulegt að Sorpa hafi náð þeim áfanga enda bíði fjölmargar áskoranir á næstunni við að bæta árangur í söfnun, flokkun og endurvinnslu úrgangs.

Staðfesting á innleiðingu gæðavottunarkerfis. Fjölmörg áhugaverð erindi um úrgangsmál voru flutt á ráðstefnunni. Meðal annars fjallaði Páll Hilmarsson hjá Garðabæ um sögu og hlutverk Sorpu, Sigurbjörg Sæmundsdóttir hjá umhverfisráðuneytinu ræddi um það sem er framundan í úrgangsmálum, norrænir sérfræðingar tóku til máls um það sem er efst á baugi í sorpmálum hjá nágrannaþjóðum okkar, Hildigunnur Hafsteinsdóttir hjá Neytendasamtökunum ræddi um úrgangsmálin frá sjónarhóli neytenda og Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, sagði frá þróunarverkefnum og nýjungum í starfsemi fyrirtækisins.

Umhverfisráðuneytið óskar Sorpu bs. til hamingju með daginn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum