Hoppa yfir valmynd
5. maí 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Endurskoðun laga um landgræðslu

Nefnd um endurskoðun landgræðslulaga
Nefnd um endurskoðun landgræðslulaga

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur ákveðið að hefja vinnu við endurskoðun á lögum um landgræðslu, með það að markmiði að efla landgræðslustarfið og styrkja stöðu gróður- og jarðvegsverndar í landinu.

Telur ráðuneytið mikilvægt að fram fari heildarendurskoðun á lögum um landgræðslu, enda aðstæður í samfélaginu gjörbreyttar síðan núverandi lög voru sett fyrir rúmlega 40 árum. Leggur ráðuneytið áherslu á að við endurskoðunina verði m.a. skýrð betur ákvæði um verndun gróðurvistkerfa og jarðvegs, sem og leiðir til landgræðslu með það meginmarkmið að byggja upp og endurheimta gróður- og jarðvegsauðlindir landsins og stuðla að því að nýting þeirra verði sjálfbær.

Hlutverk nefndarinnar er að fara yfir núgildandi lög er varða málefni landgræðslu og framkvæmd þeirra og vinna greinargerð (hvítbók) um hvert skuli vera inntak og áherslur nýrrar löggjafar um landgræðslu og skila til ráðherra eigi síðar en 15. desember 2011.

Á grundvelli þeirrar greinargerðar mun umhverfisráðuneytið að höfðu samráði við nefndina, vinna drög að frumvarpi til nýrra landgræðslulaga. Stefnt er að því að umhverfiráðherra leggi fram frumvarp til nýrra laga um landgræðslu á árinu 2012.

Leggur umhverfsráðherra sérstaka áherslu á að nefndin hafi samráð og samstarf við þá aðila sem málið varðar við gerð greinargerðarinnar.

Nefnd um endurskoðun laga um landgræðslu er skipuð eftirfarandi:

  • Daði Már Kristófersson, dósent við Háskóla Íslands, formaður
  • Ása Aradóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands
  • Elín Heiða Valsdóttir, bóndi
  • Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri
  • Jón Geir Pétursson, sérfræðingur í umhverfisráðuneyti
  • Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, lögfræðingur í umhverfisráðuneyti

Með nefndinni starfar Andrés Arnalds fagmálstjóri hjá Landgræðslu ríkisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum