Hoppa yfir valmynd
30. mars 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Frumvörp um Árósasamning lögð fyrir Alþingi

Annað ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur með breytingum 2. september 2010.
Ríkisstjórn Íslands

Frumvörp umhverfisráðherra um Árósasamninginn hafa verið afgreidd í ríkisstjórn og ráðgert er að þau verði lögð fyrir Alþingi á yfirstandandi þingi. Árósasamningurinn fjallar um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum

Frumvörpunum er ætlað að tryggja að reglur íslenskra laga samræmist Árósasamningnum sem gerður var í Árósum í Danmörku 25. júní 1998 og öðlaðist gildi 30. október 2001. Til stendur að fullgilda samninginn hér á landi og eru frumvörpin liður í því ferli. Frumvörpin fela meðal annars í sér að almenningur getur borið ákvarðanir sem varða mikilvæga umhverfishagsmuni undir sjálfstæða og óháða úrskurðarnefnd og leitað virkra úrræða til að tryggja verndarhagsmuni umhverfisins.

Helstu breytingar á lögum sem lagðar eru til í frumvörpunum eru eftirfarandi.

  1. Lagt er til í frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins að allar stjórnvaldsákvarðanir er lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum verði kæranlegar til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
  2. Lagt er til að ákvæðum laga sem fela ráðherra að taka ákvarðanir sem vísað er til hér að framan verði breytt og leyfisveitingavaldið fært viðeigandi undirstofnunum.
  3. Lagt er til í frumvarpi til laga um úrskurðarnefnd að aðild að kærum vegna tiltekinna ákvarðana stjórnvalda verði opnuð öllum (actio popularis). Um er að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, um sameiginlegt umhverfismat og endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, ákvarðanir ýmissa stjórnvalda um að leyfa framkvæmdir sem eru matsskyldar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og ákvarðanir Umhverfisstofnunar samkvæmt lögum nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur um að leyfa sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera og að markaðssetja erfðabreyttar lífverur eða vörur sem innihalda þær.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum