Hoppa yfir valmynd
21. október 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Dregur úr akstri utan vega

Gróðurskemmdir
Gróðurskemmdir vegna utanvegaaksturs

Vel gengur að framfylgja þriggja ára aðgerðaráætlun gegn akstri utan vega að mati verkefnisstjórnar áætlunarinnar. Svo virðist sem dregið hafi úr utanvegaakstri það sem af er þessu ári miðað við liðið ár, bæði á miðhálendinu og í Reykjanesfólkvangi. Helstu ástæður þessa eru taldar vera mikil og góð umfjöllun Morgunblaðsins og Ríkisútvarpsins um utanvegaakstur snemmsumars, góð upplýsingagjöf Landsbjargar til ferðamanna, sérstakt átak Vatnajökulsþjóðgarðs til að sporna við akstri utan vega, átak Umhverfisstofnunar sem fól meðal annars í sér auglýsingar í útvarpi og blöðum og síðast en ekki síst tíu ný skilti við hálendisleiðir sem Vegagerðin setti upp í samstarfi við félög og fyrirtæki.

Umhverfisstofnun hóf að taka saman upplýsingar um umfang og tíðni utanvegaaksturs í upphafi árs 2009. Af því tilefni var útbúið tilkynningareyðublað sem var dreift til landvarða Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs auk Hálendisvaktar Landsbjargar. Auk þess óskaði Umhverfisstofnun eftir yfirliti frá öllum lögreglustjóraembættum um tíðni aksturs utan vega. Upplýsingar um tíðni utanvegaaksturs í sumar hafa ekki borist frá lögreglu. Engu að síður telur Umhverfisstofnun að dregið hafi úr akstri utan vega og byggir þá niðurstöðu sína á skýrslum landvarða og viðtölum við starfsmann Reykjanesfólkvangs.

Ávallt á vegi - aðgerðir gegn akstri utan vega.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum