Hoppa yfir valmynd
15. október 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tillögur starfshóps um vöktun og vörslu á miðhálendinu

Nauðsynlegt er að fræða ferðamenn betur um þær hættur sem sem eru til staðar í landinu og um umgengni við náttúru landsins og verndun hennar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðu starfhóps fulltrúa dómsmálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, fjármálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Starfhópurinn starfaði undir forystu umhverfisráðuneytisins og honum var falið að fjalla um öryggi og umferð ferðamanna á miðhálendinu, kanna fyrirkomulag, samræmingu og skipulag þessara mála. Einnig var honum falið að leggja fram tillögur að úrbótum.

Meðal þeirra breytinga sem hópurinn lagði til svo bæta mætti umgengni við landið og efla fræðslu við ferðamenn var fjölgun landvarða sem starfa á friðlýstum svæðum á miðhálendinu. Þannig taldi hópurinn æskilegt að starfandi væri heilsársstarfsmaður í Friðlandi að Fjallabaki og að starfstímabil landvarða á öðrum hálendissvæðum yrði lengt. Þá taldi hópurinn þörf á aukinni samvinnu milli Vatnajökulsþjóðgarðs og Landsbjargar um tilkynningarskyldu vegna lengri ferða á jökul og að fjarskiptasamband á miðhálendinu yrði bætt þar sem mikil umferð fólks væri á sumrin.

Tillögur starfshópsins í heild sinni:

Meta náttúruvá s.s. veður, flóð, sjávarflóð, jarðskálfta ofl.

  • Vinna viðbragðsáætlanir fyrir helstu ferðamannsvæðin.

Samræma fjarskiptaskipulag

  • Með tilkomu TETRA fjarskiptakerfisins er þetta mögulegt.
  • Notkun á talhóp fyrir miðhálendið myndi bæta upplýsingastreymi.
  • Upplýsingar um viðveru væru þannig sendar öllum viðkomandi.
  • Beiðnir um aðstoð eða upplýsingar um utanvegaakstur væru þá sendar öllum strax.

Halda samráðsfundi í upphafi ferðamannatímans

  • Lögregla, Landhelgisgæsla, Slysavarnafélagið Landsbjörg, landverðir þjóðgarðanna og friðlýstra svæða (Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvallaþjóðgarður), Veðurstofa Íslands og ferðaþjónustuaðilar hittust og stilltu saman strengi sína.

Samræma betur áhersluatriði

  • Ljóst að viðvera landvarða og hálendisgæsla björgunarsveitanna eru lykilatriði. Tryggja þarf mikla samvinnu þarna á milli.
  • Ljóst að fjármunum varið í hálendisgæslu björgunarsveitanna er vel varið og til athugunar að ríkið styðji frekar við það verkefni með þá auknum verkefnum í staðinn.

Auka samvinnu

  • Hugsanlega mætti hafa lögreglumenn í bílum björgunarsveita við hálendisgæslu á ákveðnum svæðum á þeim tímum sem mikið álag er.
  • Landverðir nýti sér viðveru björgunarsveita og fái til liðs við sig við yfirferð um ákveðin svæði og til úrlausnar á ákveðnum verkefnum.

Skýra regluverk

  • Heimildir þeirra sem starfa að vöktun og vörslu á miðhálendinu til afskipta af brotum þurfa að vera skýrar og verkferlar þurfa að vera samræmdir. Efla þarf eftirlit með ferðaþjónustuaðilum og skoða vel leyfisveitingar til þeirra aðila sem reka þjónustu sem tengjast jöklaferðum, leiðsögn, tryggingum og fleiri þætti.
  • Form tilkynninga um utanvega akstur og hvaða upplýsingar lögregla þarf að fá þurfa að vera öllum kunnugar.
  • Ljóst sé hvaða farveg mál fara í sem verða til við vöktun og vörslu þeirra aðila sem henni sinna og er þá átt við aðra en lögreglu.

Auka fræðslu til ferðamanna

  • Efla þarf fræðsluþáttinn og koma honum betur á framfæri við ferðamenn, hagkvæmast er að nota þær upplýsingaveitur og heimasíður sem til eru.
  • Vinna að enn frekari þróun á Safetravel verkefni Landsbjargar og koma þar inn ýtarlegri upplýsingum um viðkvæma náttúru og hvernig beri að umgangast hana.
  • Auka eftirlit og viðveru landvarða og lögreglu á miðhálendinu. Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður ásamt lögregluyfirvöldum og Landsbjörgu meti þau svæði og forgangsraði þeim eftir því hvar mest þörf er á auknu eftirliti og viðveru landvarða og lögreglu.

Tilkynningarskilda inn á hálendið

  • Fá Slysavarnarfélagið Landsbjörg í samvinnu við Ferðamálastofu og Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) til að koma með tillögur að raunhæfu kerfi þar sem ferðamenn geta tilkynnt um ferðir sínar inn á hálendið.

Merkingar um lokanir og hættur á hálendinu

  • Fá Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Vegagerðina, Ferðamálastofu, Samtök ferðaþjónustunnar og Veðurstofu Íslands til að vinna tillögur um hvar og hvernig best sé að koma skilaboðum á framfæri um lokanir og aðrar hættur við hálendisvegi og slóða.

Viðvaranir í GSM síma

  • Vinna þarf frekar tillögur um hvernig hægt er að koma upp búnaði til að senda viðvaranir (SMS) í GSM síma á ákveðnum svæðum eða landinu öllu.

Greinargerð starfshóps um vöktun og vörslu á miðhálendinu (pdf-skjal).

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum