Hoppa yfir valmynd
10. september 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ný skipulagslög samþykkt á Alþingi

Alþingi
Alþingi

Frumvarp umhverfisráðherra til nýrra skipulagslaga var samþykkt á Alþingi í gær. Lögin kveða á um fjölda nýmæla en markmið þeirra er að auka skilvirkni, sveigjanleika og gæði við gerð skipulags. Lögin gera ráð fyrir aukinni þátttöku almennings við gerð skipulagsáætlana og í þeim er kveðið á um landsskipulagsstefnu þar sem stjórnvöld móta heildstæða sýn í skipulagsmálum.  

Landsskipulagsstefna

Landsskipulagsstefnunni er ætlað að samþætta áætlanir opinberra aðila um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Sú stefnumörkun sem landsskipulagsstefnan felur í sér er nýmæli hér á landi enda er hér í fyrsta skipti kveðið á um það í löggjöf að samþætta skuli áætlanir stjórnvalda á ýmsum sviðum. Slík stefna er í anda sjónarmiða um aukið gagnsæi og faglegri vinnubrögð af hálfu stjórnvalda við stefnumörkun í málum sem varða almannahagsmuni. Með landsskipulagsstefnunni mun hefjast víðtækt samráð allra þeirra aðila sem koma að stefnumörkun um landnotkun. Áhersla er lögð á að ná víðtækri sátt um efni landsskipulagsstefnu. Í henni verður stefna stjórnvalda um sjálfbæra þróun útfærð og önnur stefnumörkun sem ríkið kann að hafa mótað og sett fram, svo sem í loftslagsmálum. Þá er landsskipulagsstefnu ætlað að miðla upplýsingum til sveitarfélaga um stöðu og þróun skipulagmála til leiðbeiningar fyrir þau við gerð skipulags.
Gert er ráð fyrir að landsskipulagsstefna verði lögð fram sem þingsályktunartillaga á Alþingi til 12 ára og að stefnan verði endurskoðuð á fjögurra ára fresti.  Eins og í eldri skipulagslögum verður höfuðábyrgð á skipulagsgerð áfram hjá sveitarfélögum.

Aukin þátttaka almennings

Í nýju skipulagslögunum er að finna skýrari fyrirmæli um samráð og kynningu við gerð skipulagsáætlana, bæði gagnvart almenningi og opinberum aðilum. Þannig er lögð áhersla á að auka þátttöku almennings við gerð skipulags og að samráðsaðilar komi að skipulagsferlinu eins snemma og unnt er. Með því er ætlunin að vanda enn frekar gerð skipulags og tryggja betur að hagsmunaaðilar hafi tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarfélög þannig að þau geti tekið upplýsta ákvörðun við afgreiðslu skipulagsáætlunar. Skipulagsáætlanir sveitarfélaga geta varðað íbúa mjög miklu og því er nauðsynlegt að sjónarmið þeirra komi fram við gerð áætlana. Aukin aðkoma almennings að skiplagsáætlunum er í samræmi við þá þróun sem orðið hefur í hugmyndafræði um íbúalýðræði og aukna aðkomu almennings að stefnmótun og áætlanagerð hins opinbera.

Sjálfbær þróun

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að í nýju lögunum sé lögð áhersla á sjálfbæra þróun og heildarsýn hvað varðar landnotkun. Land sé auðlind sem við eigum að umgangast  með mikilli varfærni: ,,Við Íslendingar erum þjóð sem er einstaklega rík af landi, bæði af gæðum og magni. Gæðum vegna þess að landslag hér á Íslandi er einstaklega fjölbreytt. En það að hafa yfir svo miklu landi að ráða leggur ríkar skyldur á herðar okkar til að vinna að skipulagsáætlunum í anda sjálfbærrar þróunar því þær ákvarðanir sem teknar eru í dag koma til með að hafa veruleg áhrif á umhverfi og lífsgæði komandi kynslóða.”

Hægt er að skoða frumvarpið og umfjöllun Alþingis um það á heimasíðu Alþingis.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum